Innlent

Regnboginn í Vík í Mýrdal um helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í Mýrdalshreppi alla helgina. Aðal hátíðarhöldin fara þó fram í Vík.
Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í Mýrdalshreppi alla helgina. Aðal hátíðarhöldin fara þó fram í Vík. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúar í Vík í Mýrdal og sveitunum þar í kring, ásamt gestum sínum ætla að skemmta sér saman um helgina því þar fer fram menningarhátíðin „Regnboginn – list í fögru umhverfi“.

Menningarhátíð Mýrdælinga, „Regnboginn – list í fögru umhverfi“ hófst á fimmtudaginn og stendur alla helgina. Boðið er upp á mjög fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Þorbjörg Gísladóttir er sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

„Það verður tónlist, tónleikar, það er ball, það eru myndlistarsýningar og við erum með alþjóðlegt matarsmakk, auk þess sem við skrifuðum undir samning við Landlækni um heilsueflandi samfélag í gær. Það er bara nóg af öllu á þessari flottu hátíð,“ segir Þorbjörg.

Hún segir almennt góða þátttöku í hátíðinni, sem er haldin á hverju hausti.

„Já, það hefur aukist núna aftur. Það var mjög góð þátttaka í fyrra og mér sýnist hún vera mjög góð ár. Núna sit ég heima hjá mér og er að smyrja heimabakað rúgbrauð frá Kerlingardal með reyktri bleikju frá Fagradal en það verður framlag sveitarstjórans og þessara tveggja bænda, íslenska framlagið á matarsmakkinu, þannig að það eru allir að gera eitthvað og undirbúa.“

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, sem segir alla velkomna á hátíðina um helgina.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þorbjörg segist finna það mjög vel hvað fólk er þyrst í að gera eitthvað saman eftir allar samkomutakmarkanirnar vegna Covid. Þá sé hátíðin í Mýrdalshreppi flott framtak.

„Já, þetta er mjög mikilvægt, fólk er allan jafnan mjög upptekið og allir á hlaupum og þessi einangrun hefur verið undanfarið ár, fólk hefur verið hvert í sínu horni og þá er þetta enn og frekar mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Þorbjörg.

Hægt er að nálgast alla dagskrá helgarinnar inn á heimasíðu sveitarfélagsins, vik.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.