Innlent

Miklu meira talað um faraldurinn hér en í Danmörku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lífið gengur sinn vanagang í Danmörku eftir að samkomutakmörkunum var aflétt þar í landi fyrir tæpum mánuði. Faraldurinn raunar ber vart á góma, hvorki í daglegu tali né í fjölmiðlum.
Lífið gengur sinn vanagang í Danmörku eftir að samkomutakmörkunum var aflétt þar í landi fyrir tæpum mánuði. Faraldurinn raunar ber vart á góma, hvorki í daglegu tali né í fjölmiðlum. Getty

Lítið fer fyrir umræðu um kórónuveiruna í Danmörku eftir að samkomutakmörkunum hefur verið aflétt þar í landi, að sögn Íslendings í Kaupmannahöfn, sem segir fólki létt. Gera má ráð fyrir að íslensk stjórnvöld muni horfa líta til Norðurlandanna þegar ákvarðanir um næstu skref í sóttvarnaaðgerðir hér á landi verða teknar.

Tæpur mánuður er síðan öllum samkomutakmörkunum var aflétt í Danmörku. Ef helstu fréttamiðlar þar í landi eru skoðaðir má sjá að lítið fer fyrir umræðu um faraldurinn og nær hvergi að sjá að tölur yfir fjölda smitaðra séu uppfærðar daglega, líkt og gert er hér.

Fréttamaðurinn Elín Margrét Böðvarsdóttir, sem búsett er í Kaupmannahöfn, segir umræðuna um faraldurinn mun plássfrekari hér á Íslandi en úti.

„Það er ekkert verið að tala um covid, hér um bil,” segir Elín. „Ég skrapp heim til Íslands fyrir rúmum mánuði og það var eiginlega hálfgert sjokk. Þó það sé búið að aflétta mikið síðan þá, þá voru flestir mjög hikandi við að knúsa mann og með efasemdir um að hittast og þar fram eftir götunum. Það er svona það sem ég finn fyrir, að covid er að taka miklu meira pláss heima heldur en hér.”

Elín Margrét segir að fólki sé létt.

Hún segir það raunar heyra til undantekninga að fjallað sé um faraldurinn í Danmörku og að það hafi ekki komið til tals að grípa til hertari aðgerða, þó smituðum hafi fjölgað undanfarna daga. Stjórnvöld beini sjónum sínum fyrst og fremst að því að vernda óbólusetta, til dæmis börn.

„Allavega í kringum mig er töluvert léttara yfir öllum. Þetta hvílir ekki jafn þungt á fólki og bara að geta komið saman virðist vera að hafa jákvæð áhrif á fólkið i kringum mig, fólk er farið að hugsa um allt annað. Ég fór til að mynda á fótboltaleik um daginn þar sem voru 35 þúsund manns komnir saman og sá hvað stemningin virðist gera mikið fyrir samfélagið,” segir Elín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.