Innlent

„Ekki bara eldri karlar í Fram­sóknar­flokknum“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er ánægður með endurnýjunina sem hefur orðið innan flokksins. 
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er ánægður með endurnýjunina sem hefur orðið innan flokksins.  Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson segir það alls ekki svo að bara eldri karlar séu í Framsóknarflokknum. Stór hjörð ungs fólks hafi bæst í lið við flokkinn undanfarið kjörtímabil og ungar konur séu sérstaklega áberandi í hópnum. 

Þetta sagði Sigurður í samtali við fréttastofu á kosningavöku Framsóknarflokksins á Granda. Hann segir kvöldið verða spennandi og kosningabaráttuna búna að vera skemmtilega. Hún hafi einkennst af jákvæðni og velvild. 

„Svo veit maður auðvitað ekki hvað kemur upp úr kössunum en það verður bara að segjast eins og er að það er góð tilfinning þegar maður er búinn að fara í gegn um svona mikla vinnu og finnur að það eru margir með,“ sagði Sigurður.

Fréttamaður Stöðvar 2 á staðnum benti á að fjöldi ungs fólks sé statt á kosningavöku flokksins, sem hafi ekki endilega verið staðan áður. Sigurður segir margt ungt fólk hafa gengið til liðs vð flokkinn. 

„Já, þetta er kannski ekki mikið leyndarmál hjá okkur en ég veit að það eru margir sem halda að Framsóknarflokkurinn sé hópur af eldri köllum en það er aldeilis ekki svo. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum, 2018, fengum við mikið af ungu fólki til liðs við okkur, mikið af ungum konum og það fólk hefur svo komið með okkur inn í landsmálin. Listarnir okkar endurspegla það,“ segir Sigurður Ingi. 

„Við erum með mikið af öflugu fólki sem er líka fulltrúar í sínum heimahéruðum, hringinn í kring um landið og eins og þið sjáið hérna í kvöld: mikið af ungu fólki sem fylgir okkur.“

Talsverð breyting hefur orðið á fylgi flokksins undanfarna daga, samkvæmt skoðanakönnunum, og flokkurinn bætt töluvert við sig. Hefur þessi breyting komið formanninum á óvart?

„Auðvitað er hún gleðileg og óvænt, þú veist aldrei hvað er að fara að gerast en ég hef alveg fundið fyrir þessu en maður veit aldrei hvað gerist,“ segir Sigurður. Hann segist sáttur með fyrstu tölur. 

„Þetta byrjar mjög vel og staðfestir þann meðbyr sem við höfum fundið en auðvitað eru þetta bara fyrstu tölur og við skulum sjá hvað gerist seinna í kvöld.“

Þessar fyrstu tölur eru kannski ekki eins jákvæðar hjá Vinstri grænum?

„Nei, þeir eru greinilega að tapa en það er líka mikil dreifing á öll framboðin, mismikið þó en frábær árangur hjá mínu fólki,“ segir Sigurður. Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður flokksins tekur undir þetta.

„Mér líst mjög vel á þetta, þetta eru góðar tölur fyrir okkur framsóknarfólk þannig að við bara vonumst til að þetta verði sami gangurinn um allt land,“ segir Lilja.

Býstu við að sama ríkisstjórn taki við?

„Það er allt of snemmt að segja til um slíkt, við auðvitað að samstarfsflokkum gangi líka vel en þessar tölur eru góðar og eins og þú heyrir á fólkinu okkar er það afskaplega ánægt með þetta.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.