Fótbolti

Var boltasækir hjá liðinu sem hann er byrjaður að skora fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Neville Anderson fagnar marki sínu gegn Silkeborg í gær.
Mikael Neville Anderson fagnar marki sínu gegn Silkeborg í gær. getty/Lars Ronbog

Mikael Neville Anderson hefur farið vel af stað með AGF og skorað í báðum leikjum sínum fyrir liðið. Fyrir tíu árum var hann boltasækir hjá AGF.

Mikael skoraði annað mark AGF þegar liðið sigraði Silkeborg, 2-0, í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Auk Mikaels leikur Jón Dagur Þorsteinsson með AGF og Stefán Teitur Þórðarson er leikmaður Silkeborg.

Mikael gekk í raðir AGF frá Midtjylland fyrr í þessum mánuði. Hann var í yngri liðum AGF og var meira að segja boltasækir á leikjum aðalliðsins.

Fyrir leikinn gegn Silkeborg í gær fór Mikael í viðtal hjá Viaplay þar sem myndband af honum að fagna marki með leikmönnum AGF í leik frá 2011 var sýnt.

„Þetta er langt síðan en gaman að sjá þetta. Þau hafa greinilega unnið rannsóknarvinnuna sína, ég gef þeim það. Þetta sýnir bara enn þá meira hvað AGF snýst um fyrir mig. Nú ætla ég að vinna nokkra leiki. Það er gaman að sjá leikmenn og boltastrákana fagna saman. Þetta var stórt fyrir mig á þeim tíma og verður alltaf falleg minning frá mínum ferli,“ sagði Mikael.

Landsliðsmaðurinn var valinn í lið umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn Silkeborg ásamt samherja sínum, sænska vinstri bakverðinum Eric Kahl.

Mikael skoraði eina mark leiksins þegar AGF vann Vejle, 1-0, um þarsíðustu helgi. AGF er í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir níu umferðir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.