Lífið

Brit­n­ey Spears er trú­lofuð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Parið á góðri stundu.
Parið á góðri stundu. Axelle/Bauer-Griffin/FilmMagic

Bandaríska söngkonan Britney Spears og kærasti hennar Sam Asghari eru trúlofuð. Spears greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni.

Þar birtir hún myndband af sér og Asghari þar sem hún skartar trúlofunarhring og kyssir eiginmanninn tilvonandi. Með myndbandinu skrifar hún „Ég fokking trúi þessu ekki.“

Spears, sem er 39 ára, og hinn 27 ára gamli Asghari hafa verið saman í rúm fjögur ár.

Mikið hefur verið fjallað um Spears að undanförnu og baráttu hennar fyrir eigin forræði. Síðustu þrettán ár hefur faðir hennar farið með forræði yfir henni og stjórnað þannig fjárhag hennar og lífi. Fyrr í mánuðinum komst hreyfing á mál hennar þegar faðir hennar skilaði inn nauðsynlegum skjölum til þess að hann láti af forræði yfir dóttur sinni.

Sjálfræðisbarátta hennar hefur vakið heimsathygli og aðdáendur víða um heim stutt söngkonuna á veraldarvefnum og efnt til mótmæla undir myllumerkinu #FreeBritney.

Asghari er frá Tehran í Íran og er fæddur árið 1994. Hann er fyrirsæta og einkaþjálfari og hefur búið í Los Angeles frá árinu 2006. Parið kynntist þegar Asghari lék á móti Spears í tónlistarmyndbandinu við lagið Slumber Party árið 2016. Þau opinberuðu samband sitt árið 2017 og hann hefur staðið þétt við bak hennar síðustu ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.