Sport

Þrjár fengu Ólympíugull í afmælisgjöf á þessum leikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sydney Mclaughlin eftir hlaupið sem færði henni gullverðlaun á afmælisdeginum.
Sydney Mclaughlin eftir hlaupið sem færði henni gullverðlaun á afmælisdeginum. AP/Charlie Riedel

Þrjár íþróttakonur náðu því að vinna Ólympíugull á afmælisdeginum í sínum á Ólympíuleikunum í Tókýó sem lauk um helgina. Enginn íþróttakarl náði því aftur á móti.

Alls náðu níu keppendur í Ólympíuverðlaun á afmælisdaginn sinn á þessum leikum. Þar af voru tveir karlar og sjö konur.

Þær þrjár sem fengu Ólympíugull í afmælisgjöf á þessum leikum voru Antonella Palmisano frá Ítalíu og þær Sydney McLaughlin og A'ja Wilson frá Bandaríkjunum.

Ítalski göngugarpurinn Antonella Palmisano vann gullið í 20 kílómetra göngu á þrítugsafmælisdaginn sinn sem var 6. ágúst. Hún hafði verið fjórða í sömu grein á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Körfuboltakonan A'ja Wilson varð Ólympíumeistari með bandríska körfuboltaliðinu á 25 ára afmælisdaginn sinn eftir að liðið vann Japan í úrslitaleik. Wilson var með 19 stig stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 varin skot á aðeins rúmu 24 mínútum í úrslitaleiknum.

Síðast en ekki síst þá er það grindahlauparinn Sydney McLaughlin sem vann gull með bandarísku boðhlaupssveitinni í 4 x 400 metra boðhlaupi á 22 ára afmælisdaginn sinn 7. ágúst. McLaughlin hafði þremur dögum fyrr unnið 400 metra grindahlaup kvenna á nýju heimsmeti.

Þau sem unnu silfurverðlaun á afmælisdaginn sinn voru rússnesku körfuboltakonurnar og tvíburarnir Evgeniia Frolkina Frolkina og Olga Frolkina sem kepptu í 3 á 3 mótinu, rússneska tenniskonan Elena Vesnina í tvenndarleik og spænski knattspyrnumaðurinn Dani Ceballos.

Þau sem unnu bronsverðlaun á afmælisdaginn voru franski þríþrautarkonan Leonie Periault í liðakeppni og ítalski sundkappinn Nicolo Martinenghi í 4 x 100 metra boðsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×