Sport

Bronskonan á síðustu heimsleikum í CrossFit með COVID-19 og fékk ekki að keppa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kari Pearce er hér á verðlaunpallinum með þeim Tiu Clair Toomey og Katrínu Tönju Davíðsdóttur en hún var fyrsta bandaríska konan á palli á heimsleikunum í sex ár.
Kari Pearce er hér á verðlaunpallinum með þeim Tiu Clair Toomey og Katrínu Tönju Davíðsdóttur en hún var fyrsta bandaríska konan á palli á heimsleikunum í sex ár. Instagram/@crossfitgames

Kari Pearce, þriðja besta CrossFit kona heims í fyrra, er ekki meðal keppanda á þessum heimsleikum í CrossFit þrátt fyrir að hafa unnið sér réttinn til þess.

Pearce var mætt til Madison til að taka þátt í heimsleikunum en fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi sem allir keppendur þurftu að gangast undir. Slæmu fréttirnar komu að morgni fyrsta keppnisdagsins.

Landa hennar, Bethany Shadburne, sem einnig var líkleg til afreka á heimsleikunum í ár, hafði áður greinst með COVID-19 og hafði Bethany hætt við keppni fyrir tveimur dögum.

Shadburne æfði með Pearce og Danielle Brandon hjá Underdogs Athletics í aðdraganda leikanna en í fyrstu prófum í Madison þá voru þær Pearce og Brandon báðar neikvæðar.

Pearce átti því að fá að keppa eða þar til að hún fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi nokkrum dögum síðar.

Brandon er enn neikvæð og fékk því að keppa í gær. Það vakti þó athygli að hún keppti „í sóttkví“ í gær það er að hún skilaði sínum æfingum í góðri fjarlægð frá öðrum keppendum.

Þetta er mikil áfall fyrir bæði Kari Pearce og Bethany Shadburne sem og Bandaríkjamenn enda tvær af bestu CrossFit konum landsins.

Kari Pearce endaði í þriðja sæti á heimsleikunum 2020 á eftir þeim Tiu-Clair Toomey og Katrínu Tönju Davíðsdóttur. Shadburne vann Pearce í undanúrslitunum og þótti því líka líkleg á verðlaunapall á heimsleikunum í ár.

Hér fyrir ofan má sjá hvað Kari Pearce skrifaði á Instagram síðu sína eftir að hafa fengið þessar ömurlegu fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×