Í nýrri tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu er reynt að bregðast við þessari umræðu.
„Nokkurs misskilnings hefur gætt varðandi grímuskylduna og því vill ráðuneytið árétta og skýra reglurnar sem gilda til og með 13. ágúst næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt tilmælunum gildir grímuskyldan þar sem ekki er unnt að viðhalda eins metra nálægðartakmörkunum og þar sem húsnæði er illa loftræst.
„Þetta á til að mynda við um heilbrigðisþjónustu, verslanir, söfn, innanlandsflug og -ferjur, almenningssamgöngur, leigubifreiðar og hópbifreiðar, í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og í annarri sambærilegri starfsemi.“
Börn fædd 2006 og síðar undanþegin
Einnig er grímuskylda í gildi fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og sviðslistarviðburðum á borð við leiksýningar, bíósýningar og tónleika. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin reglum um grímuskyldu.
Lesa má nánar um almenna nálægðartakmörkun og grímunotkun í gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir.