Innlent

For­sætis­ráð­herra undir­býr út­tekt á að­gerðum stjórn­valda í far­aldrinum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Forsætisráðherra telur mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda í faraldrinum hér á landi verði gerðar upp.
Forsætisráðherra telur mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda í faraldrinum hér á landi verði gerðar upp. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir mikilvægt að gerð verði úttekt á aðgerðum sem gripið var til í kórónuveirufaraldrinum og að dreginn verði lærdómur af honum. Endanlegt fyrirkomulag úttektarinnar liggur ekki fyrir, en ráðherra lítur til nágrannalanda okkar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur hafið undirbúning að vinnu við úttekt á aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna faraldurs kórónuveirunnar. Í Finnlandi og Noregi hafa stjórnvöld komið á fót óháðum nefndum til að gera slíka úttekt. Í Danmörku hefur þingið þá ráðist í skoðun á aðgerðum þar í landi.

„Það er mitt mat að við eigum að fara í slíka úttekt hér á Íslandi því það skiptir náttúrulega miklu máli að draga einhverja lærdóma af svona reynslu og fara yfir það í raun og veru hvernig stjórnkerfið virkaði og hvernig samstarfs ólíkra aðila gekk,“ segir Katrín.

Hún segir mikilvægt að faraldurinn verði gerður upp, hvort sem aðeins verði litið til sóttvarnaaðgerða eða einnig annarra þátta, til að mynda efnahagslegra aðgerða.

„Þetta hefur auðvitað verið svo stórt og mikið og kallað á margháttaðar aðgerðir og mikið samstarf ólíkra aðila. Þannig að ég held að það skipti miklu að fara yfir bæði hvað gekk vel en líka hvað má betur fara og hvaða lærdóma við getum dregið.“

Undirbúningur við úttektina er hafinn, en endanleg útfærsla mun ekki liggja fyrir fyrr en síðar í sumar.

„Það er að segja hvort eingöngu er verið að skoða sóttvarnir, eða stærri og breiðari mynd og virkni stjórnkerfisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×