Lífið

Fjögurra ára drengur gekk gæsaungum í föðurstað

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Yngsti gæsabóndi landsins ætlar sér að verða fuglafræðingur í framtíðinni.
Yngsti gæsabóndi landsins ætlar sér að verða fuglafræðingur í framtíðinni. Stöð2

Ólafur Elí Erlendsson fjögurra ára hefur gengið nokkrum gæsaungum í föðurstað. Fréttastofan heimsótti þennan yngsta gæsabónda landsins á Álftanesi og hitti krúttlegu vinina. 

Óli er Garðbæingur en finnst fátt skemmtilegra en að fara í sveitina, alla leið út á Álftanes. Þar eru foreldrar hans, Erlendur Kristjánsson og Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir, með garðyrkjufyrirtæki. Óli fékk þar smá pláss fyrir ungana sína sem hann hugsar einstaklega vel um eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Óli hefur lofað ungunum að passa þá þar til þeir eru nógu stórir til að passa sig sjálfir og tekur hlutverki sínu mjög alvarlega. 

Verndaði ungana frá mávinum

„Við erum með alígæsir hérna úti á Álftanesi og þegar það fóru að koma ungar í vor þá kom mávurinn og byrjaði að pikka einn og einn í burtu. Hann Óli litli vildi alls ekki hafa það,“ segir Erlendur faðir Óla.

„Bara með höndunum og svo setti ég þá í kassa,“ segir Óli um það hvernig hann bjargaði ungunum sínum. Því miður náði Óli samt ekki að bjarga þeim öllum.

„Hann tók einn og ég reyndi að henda járni í mávinn,“ útskýrir Óli. Hann ætlaði ekki að leyfa mávinum að drepa alla ungana og tók málin því í sínar hendur.

„Við byrjuðum með þá heima fyrst í baðkarinu,“ segir Aðalheiður og hlær. Nú eru ungarnir komnir með flotta aðstöðu og heimilisfólk hefur fengið baðkarið sitt til baka. 

Ungarnir elta Óla allt sem hann fer líkt og hundar heimilisins. Hann hefur gefið öllum ungunum sínum sama nafnið, Patti gæs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×