Erlent

Danir kveðja grímurnar nær al­farið eftir nýtt sam­komu­lag um til­­slakanir

Atli Ísleifsson skrifar
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, og Mette Frederiksen forsætisráðherra.
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, og Mette Frederiksen forsætisráðherra. EPA

Danskir þingmenn náðu seint í nótt – eftir um tólf tíma samningaviðræður sín á milli – samkomulagi um nýjar tilslakanir í landinu.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að frá næsta mánudegi munu Danir einungis þurfa að bera grímu í almenningssamgöngum, og þá bara þeir sem standa. Grímuskyldu verður svo alfarið afnumin fyrsta dag septembermánaðar.

Heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke greindi frá samkomulaginu í nótt, en tæpur þriðjungur Dana telst nú fullbólusettur gegn kórónuveirunni.

Veitingastaðir og barir mega frá morgundeginum hafa opið og selja áfengi til miðnættis, í stað klukkan 22 líkt og verið hefur síðustu vikurnar. Frá miðjum júlí má svo hafa opið til klukkan tvö. Frá 1. júlí munu samkomur miðast við 250 manns að hámarki.

Dómsmálaráðherrann Nick Hækkerup segir að áfram verði víða notast við hið svokallaða kórónuvegabréf til að fá aðgang að ákveðnum stöðum. Kórónuvegabréfið er opinbert stafrænt vottorð sem sýnir fram á að viðkomandi sé annað hvort bólusettur, hefur fengið Covid-19 síðasta hálfa árið eða þá hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á síðustu þremur sólarhringum. Notkun vegabréfsins verður afnumin í skrefum.

Allir stjórnmálaflokkar á danska þinginu – að Nýjum borgaralegum fráskildum með sína fjóra þingmenn – standa að samkomulaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×