Guðlaugur er með 1.525 atkvæði í fyrsta sætinð en Áslaug hefur fengið 1.424 atkvæði í fyrsta sætið. Samtals er hún með 2.116 atkvæði í fyrsta til annað sæti.
Tæplega helmingur atkvæða hefur verið talinn eða 3.113 af um 7.500 atkvæðum. Næstu tölur eiga að birtast klukkan 23.

Engar breytingar urðu á röð þeirra efstu átta sem taka þátt í prófkjörinu. Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs, og í því fjórða er Brynjar Níelsson þingmaður.
Slæmt gengi Sigríðar Á Andersen þingmanns samkvæmt töldum atkvæðum vekur nokkra athygli en hún sóttist eftir öðru sæti á lista en er í því áttunda í prófkjörinu. Þar sem Reykjavík er skipt upp í tvö kjördæmi myndi áttunda sæti í prófkjörinu skila Sigríði fjórða sæti á lista í örðu hvoru kjördæminu.
Sigríður hóf kjörtímabilið sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknar. Hún sagði af sér eftir Landsréttarmálið og tók Áslaug við embættinu í september 2019.
Hér má sjá hvernig atkvæðin skiptast milli efstu átta frambjóðanda samkvæmt öðrum tölum:
- Guðlaugur Þór Þórðarson: 1.525 atkvæði í 1. sæti.
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: 2.116 atkvæði í 1.-2. sæti.
- Diljá Mist Einarsdóttir: 1.260 atkvæði í 1.-3. sæti.
- Brynjar Níelsson: 1.164 atkvæði í 1.-4. sæti.
- Hildur Sverrisdóttir: 1.573 atkvæði í 1.-5. sæti.
- Birgir Ármannsson: 1.849 atkvæði í 1.-6. sæti.
- Kjartan Magnússon: 1.484 atkvæði í 1.-7. sæti.
- Sigríður Á Andersen: 1.373 atkvæði í 1.-8. sæti.
Fréttin hefur verið uppfærð.