Innlent

Hraun komið yfir gönguleiðina upp á útsýnishólinn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ljósmyndari Vísis, Ragnar Axelsson, myndaði hraunrennslið í morgun.
Ljósmyndari Vísis, Ragnar Axelsson, myndaði hraunrennslið í morgun. Vísir/Rax

Hraun er komið yfir gönguleiðina upp á hól sem nýst hefur sem útsýnisstaður við gosstöðvarnar í Geldingadölum. 

Viðbragðsaðilar fengu upplýsingar um það klukkan tíu mínútur yfir níu í morgun að hraun væri farið að renna yfir gönguleiðina. Lögreglan á Suðurnesjum lokaði endanum á gönguleið A að gosinu í vikunni vegna hættu á að fólk myndi lokast inni þegar hraun færi að renna yfir, sem nú hefur gerst.

Hraunið flæðir af krafti á svæðinu.Vísir/Rax

Hratt hraunrennsli

Að sögn Hjálmars Hallgrímssonar, vettvangsstjóra á svæðinu hafi hraun runnið nokkuð hratt yfir útsýnispallinn.

„Og samkvæmt okkar vitund var enginn fyrir innan og það er lítið af fólki á svæðinu þannig að við erum nokkuð ánægð með þessa niðurstöðu því við vissum að þetta beið bara.“

Þrátt fyrir þetta verður áfram hægt að ganga að gosinu en gönguleiðin hefur styst.

„Það er enginn möguleiki að fara yfir á þennan hól til að sjá gosið betur. Þetta er orðið lokað þannig að það er bara styttri leið. En gönguleið A er áfram opin en hversu lengi er ómögulegt að segja til um,“ sagði Hjálmar.

Hraunið rennur hratt yfir gönguleiðina.Vísir/RAX

Ljóst er að með tímanum verður erfiðara og erfiðara að sjá gosið.

„Því að hraunið rennur allt í kringum sjálfan gíginn en það er ágætis hóll þarna aðeins lengra frá. Fólk getur alveg séð gosið frá næsta hól við hliðina á.“

Enn er töluvert af gosgestum á svæðinu.Vísir/Rax

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×