„Ég var bara þarna við hraunjaðarinn að mynda og sá hann vera að tala við konuna sína, þau voru eiginlega aðeins að rífast, og svo hoppaði hann upp á þennan stall til að komast upp á hann, með glóandi hraunið undir sér. Það var eiginlega klikkaðra en það sem sést í myndbandinu,“ segir Hermann í samtali við fréttastofu.
Hann segir manninn hafa staðið ofan á hrauninu í um mínútu til þess að konan hans gæti tekið myndir af honum.
„Þau vildu bara ná fullkominni mynd og mér sýndist þau taka nokkrar myndir. Þegar maður lendir í svona aðstæðum fattar maður eiginlega ekki hvað þetta er fáránlegt, ég stóð bara þarna og starði á þau og fattaði ekki fáránleikann við þetta fyrr en ég horfði aftur á myndbandið eftir á,“ segir Hermann.
„Ég var bara orðlaus. Ég var að taka myndband af hrauninu en beindi símanum strax að þeim þegar ég tók eftir þessu og horfði á þetta gáttaður,“ segir Hermann.
Sem leiðsögumaður hefur Hermann komið nokkrum sinnum að gosinu en þetta var í tíunda skiptið sem hann kom þangað frá því að gosið hófst. Hann segist hafa orðið vitni að ýmsu við gosstöðvarnar en engu þessu líku.
„Þegar maður fór að gosinu til að byrja með sá maður ansi mikið af illa útbúnu fólki en það var helst það sem maður sá. Kannski líka fólk sem hefur farið frekar nálægt hraunjaðrinum þegar er nokkuð hár veggur af storknuðu hrauni en ekkert nálægt þessu,“ segir Hermann.