
Hugmyndin um hópinn fæddist fyrir nokkru síðan en Hildur Dungal, skipuleggjandi hópsins Team Maxi, móðir Maximilians og fleiri vinkonur fóru að hittast vikulega til að ganga saman í kjölfar dauðsfalls hans. Úr varð labbrabb gönguhópurinn.
„Ég fékk þessa hugmynd fyrir um þremur vikum. Einn af bestu vinum yngsta stráksins míns, sem er 12 ára, lést í september, og við vildum gera eitthvað til þess að minnast hans,“ segir Hildur Dungal, sem skipulagði hópinn Team Maxi.

Hún segir að foreldrar Maxa hafi tekið vel í hugmyndina og að þá hafi hún farið í það að bjóða bekkjarfélögum hans, foreldrum þeirra og kennurum að taka þátt í hlaupinu með hópnum.
„Og við fengum alveg rosalega góð viðbrögð. Við bættust vinir og fjölskylda og úr varð um 70 manna hópur. Þetta endaði því sem mjög góð samverustund þar sem allir komu saman, hlupu, löbbuðu, spjölluðu, hlógu og minntust Maxa,“ segir Hildur.
Hún segir það hafa verið mikið áfall fyrir bekkjarfélaga og foreldra þeirra þegar fréttirnar um andlátið bárust. Maxi lést af slysförum í september síðastliðnum.

„Þetta var auðvitað mikið áfall og þess vegna mikilvægt að við kæmum öll saman til að minnast Maxa. Það eru allar líkur á því að Team Maxi mæti að minnsta kosti árlega í hlaup,“ segir Hildur.
