Það vakti nokkra athygli í lok síðasta mánaðar þegar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, sagði í samtali við miðilinn N4 að hún gerði ráð fyrir því að kjör starfsmanna yrðu verri á nýjum kjarasamningum. Kjarasamningar einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu við stéttarfélögin eru almennt verri en sveitarfélaganna.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) og stéttarfélagsins Einingar-Iðju, sem er stéttarfélag flestra starfsmanna Öldrunarheimilanna, lýsti furðu sinni á orðum bæjarstjórans og þótti þau vond skilaboð inn í samningaviðræður sem ekki voru hafnar.
Teitur segist ekki geta tjáð sig um hvernig hann hugsi sér að nýir samningar verði:
„Það er ekki meiningin að breyta þessu eitthvað stórkostlega en við getum ekki verið á kjarasamningi sveitarfélaganna áfram enda ekki slíkur aðili.“
Greiða enga leigu
Viðræður um nýja kjarasamninga við stéttarfélögin hefjast að hans sögn líklega á næstu vikum.
Í fyrrnefndu viðtali bæjarstjórans við N4 kom þá fram það viðhorf hennar að launalækkanir starfsfólks Öldrunarheimilanna væru forsendur þess að reksturinn, sem Akureyrarbær kvaðst ekki geta sinnt lengur, stæði undir sér:
„Starfsmannaveltan er mikil og nýtt starfsfólk fer á nýja kjarasamninga þegar það er ráðið til starfa. Kostnaðurinn við reksturinn lækkar því mjög fljótlega, þegar nýtt fólk er ráðið inn á öðrum kjarasamningum,“ sagði Ásthildur.
Teitur segir þetta þó ekki forsendu þess að Heilsuvernd hafi getað séð fyrir sér að reka Öldrunarheimilin á meðan Akureyrarbær vildi ekki gera það. „Við sjáum fyrir okkur að það séu einhverjar breytingar í farvatninu til dæmis í fjárveitingum enda verið sýnt fram á vanfjármögnun rekstrar hjúkrunarheimila. Þá erum við ekki að greiða leigu fyrir húsnæðið.“
Það hafi vegið einna þyngst í ákvörðuninni um að taka við starfseminni. Það munar miklu að greiða ekki leigu út úr rekstrinum.
„Síðan sjáum við tækifæri til samþættingar í þeirri heilbrigðisþjónustu sem við rekum og að geta nýtt starfsfólk og reynslu í þeim verkefnum sem við sinnum.“