Innlent

Allt að gerast á Hvolsvelli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikill uppbygging á sér nú stað á Hvolsvelli en þar seljast allar lausar lóðir eins og heitar lummur og nýir íbúar flykkjast á staðinn.

Hvolsvöllur eru hluti af sveitarfélaginu Rangárþingi eystra. Miklar byggingaframkvæmdir eiga sér nú stað á Hvolsvelli og þar rísa nú ný og ný íbúðarhverfi. Sveitarstjórinn, Lilja Einarsdóttir er að sjálfsögðu kát með þessa miklu uppbyggingu.

„Hér er allt að gerast, það er bara gríðarlega mikil uppbygging og mikil eftirspurn eftir nýjum lóðum. Við auglýstum fyrir nokkru síðan og það fór strax stór hluti þannig að það er mikil gróska hér. Ég held að þessi mikla eftirspurn eftir lóðum á staðnum sé hversu gott er að búa á Hvolsvelli. Þorpið er í þægilegri fjarlægð frá höfuðborginni en þú ert samt komin í sveitarómantíkina og rólegheitin. Það er gott að ala upp börn hérna og veðráttan er náttúrulega dásamleg og fólkið náttúrlega fyrsta flokks,“ segir Lilja.

Mikil uppbygging á sér nú stað á Hvolsvelli.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvaða fólk er það sem er aðallega að flytja á Hvolsvöll?

„Fjölskyldufólk, það er bara gríðarlega mikið af ungu fólki að koma hingað og leikskólinn okkar blómstrar enda erum við að fara að byggja nýjan leikskóla. Við munum vonandi hefjast handa við það núna síðsumars.“

Rangárþing eystra er mikið landbúnaðarsamfélag. Hvernig gengur í sveitunum á tímum Covid?

Bara vel held ég, það hafa ekki verið mikil skakkaföll þar, það er helst ferðaþjónustan og margir eru með ferðaþjónustu samhliða landbúnaði en ég held að það sé allt að fara að rísa,“ sagði Lilja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×