Enski boltinn

Ed Sheeran fer að fordæmi Kaleo

Sindri Sverrisson skrifar
Ed Sheeran á leik með Ipswich þegar áhorfendur voru leyfðir á leikvöngum. Hann bíður þess nú að geta farið að mæta aftur á völlinn þegar fjöldatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt.
Ed Sheeran á leik með Ipswich þegar áhorfendur voru leyfðir á leikvöngum. Hann bíður þess nú að geta farið að mæta aftur á völlinn þegar fjöldatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt. Getty/Richard Calver

Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran hefur keypt auglýsingu framan á búningi karla- og kvennaliðs enska knattspyrnufélagsins Ipswich Town.

Sheeran, sem er margverðlaunuð tónlistarstjarna og á metið yfir tónleikaröð sem laðað hefur til sín flesta gesti, er einn dáðasti sonur Suffolk-héraðsins í Englandi, þar sem Ipswich er staðsett. Auglýsingasamningurinn gildir til eins árs.

„Knattspyrnufélagið er stór hluti af samfélaginu og þetta er mín leið til að sýna stuðning,“ sagði Sheeran við heimasíðu Ipswich.

Sheeran fetar þar með á vissan hátt í fótspor hljómsveitarinnar Kaleo sem auglýsir framan á búningum karlaliðsins í fótbolta í sínum heimabæ, Aftureldingar í Mosfellsbæ.

„Ég hef alltaf notið þess að fara á Portman Road og ég hlakka til þess að fara þangað á nýjan leik þegar að stuðningsmenn verða aftur leyfðir á leikvöngum,“ sagði Sheeran.

Ipswich er í 9. sæti ensku C-deildarinnar fyrir lokaumferðina og ljóst að liðið mun leika þar áfram á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×