Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu áætlar að rúmlega tveir ferkílómetrar gróðurlendis hafi brunnið í Heiðmörk, um 200 hektarar. Aðeins eldurinn á Fáskrúðsbakka á Snæfellsnesi í maí árið 2015 var stærri, um 319 hektarar, undanfarin fimmtán ár. Báðir gróðureldarnir blikna þó í samanburði við eldinn mikla á Mýrum sem kviknaði 30. mars árið 2006 og brenndi 6.700 hektara áður en yfir lauk.
„Við erum að gera klár okkar tæki, flygildi og slíkt, og svo förum við og myndum þetta úr lofti. Þá fáum við nákvæman hektarafjölda á hversu stórt svæði þetta er. Miðað við þessar fréttir sem hafa komið er þetta með þeim allra stærstu,“ segir Járngerður Grétarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, um umfang eldsins í Heiðmörk við Vísi.
Töluvert af því landi sem brann í gær er skógræktarland þar sem birki og fura hefur verið ræktuð undanfarin ár. Járngerður segir að samkvæmt vistkerfakortum Náttúrufræðistofnunar sé einnig mikið af lúpínusinu og grasmóa þar. Gleggri mynd fáist af því hvað brann þegar mælingar úr lofti hafa farið fram en hún ætlar einnig að ganga um svæðið og kynna sér aðstæður sjálf í dag.

Rætur birkitrjáa geta lifað af
Misjafnt er hvort og hversu vel gróðurinn nær sér eftir skakkaföll af þessu tagi. Járngerður segir að gróðurskemmdir verði alltaf í eldi sem þessum og gróðurinn sem vex upp aftur verði ekki endilega sá sami og var fyrir. Þannig vaxi til dæmis oft upp mikið gras og blómplöntur eftir gróðurelda.
„Lyng eins og bláberjalyng kemur oft rosalega fljótt upp aftur því það er með ræturnar svo neðarlega að eldurinn nær ekki að svíða þær,“ segir Járngerður. Á hinn bóginn eigi kræki- og sortulyng erfiðara uppdráttar.
Hvað trjágróður varðar nefnir Járngerður að nokkuð af birkitrjám hafi lifað af þegar um þrettán hektarar af gömlum birkiskógi brann í Norðurárdal í Borgarfirði síðasta vor.
„Það er ekki nærri því alltaf sem birkitrén drepast. Stundum lifir rótin af og þá koma svokölluð rótarskot upp. Það kemur líka stundum fyrir að greinarnar brenna en það lifnar út úr endunum á greinunum. Stofninn sviðnar en tréð drepst ekki og svo koma lifandi greinar í endana,“ segir Járngerður.
Jafnvel þó að rætur birkitrjánna lifi af þurrkar eldurinn út áratugi af vexti þeirra og kemur þeim aftur á byrjunarreit.
Erlendis græða tegundir eins og stafafura á gróðureldum þar sem þeir opna könglana og hún getur þá sáð sér víðar.
„Hún er svolítið háð þessari hringrás að brenna þannig að það sé endurnýjun,“ segir Járngerður.
Það eigi eftir að koma í ljós hvernig furur í Heiðmörk fóru út úr eldinum og hvaða áhrif hann hefur á þær.

Mikið kolefni sem losnar
Ljóst er að verulegt magn kolefnis sem var bundið í trjám og gróðri í Heiðmörk hefur losnað út í andrúmsloftið í eldinum í gær. Járngerður segir að á meðan ekki liggi fyrir nákvæmar tölur um hversu stórt svæði brann og hvers konar gróður var þar sé erfitt að meta magnið.
„Það fer eftir því hvers lags gróður brennur, hversu stórt skóglendi er þarna, hvort það sé mikil lúpínusina. Það er mikið af kolefni sem losnar en við getum ekki sagt til um það strax hversu mikið,“ segir hún.

Þurrustu mánuðir í Reykjavík frá 1995
Eldurinn í gær kviknaði í þurru og sólríku veðri í gær en enga úrkomu hefur gert á suðvesturhorninu í rúma viku. Úrkoma í Reykjavík í apríl mældist 38,4 millímetrar sem er 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið óvenjuþurrir í Reykjavík. Heildarúrkoma þeirra var um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020 samkvæmt samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari í apríl. Ekki hefur verið jafnþurrt í Reykjavík á þessu tímabili í rúman aldarfjórðung.
Í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi sem kom út árið 2018 var varað við því að með aukinni framleiðslu gróðurs, aukinni útbreiðslu skóga og minni beit aukist hætta á sinu- og skógareldum.
Minnkandi snjóhula auk breytinga á úrkomu að vori og sumri hafi einnig áhrif á eldhættuna.
Uppfært 11.5.21 Samkvæmt mælingum Skógræktarfélags Reykjavíkur brann 61 hektari lands í Heiðmörk. Miðað við það var eldurinn sá þriðji stærsti frá 2006.