Enski boltinn

Líkti fremstu mönnum Arsenal við litla mafíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette fengu á baukinn frá Gary Neville.
Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette fengu á baukinn frá Gary Neville. getty/Stuart MacFarlane

Gary Neville líkti sóknarmönnum Arsenal við litla mafíu sem hefðu snúist gegn stjóra liðsins, Mikel Arteta.

Neville sagðist hafa þótt mjög óþægilegt að horfa á Arsenal í 3-0 tapinu fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

„Í hálfleik fannst mér það sem ég hafði séð mjög óþægilegt. Eftir leikinn sat ég aðeins lengur og talaði við Martin Tyler. Mér leið ekki vel með það sem ég sá,“ sagði Neville í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

„Það hefur nokkrum sinnum gerst í gegnum árin að ég hef reiðst eftir leiki en það er mjög sjaldgæft. Ég man eftir að QPR var lið sem ég var alls ekki hrifinn af þegar við vorum að byrja með Monday Night Football, mér fannst eitthvað rangt við Sunderland og nokkrum sinnum fannst mér Chelsea snúast gegn stjóranum sínum.“

Neville sagðist hafa upplifað það sama þegar hann horfði á leikmenn Arsenal.

„Á laugardaginn fannst mér nokkrir leikmenn framarlega á vellinum vera eins og lítil mafía. Þetta virtist vera lítill hópur leikmanna sem leið ekki vel, eins og tengingin milli þeirra og stjórans væri ekki til staðar. Það leit út eins og stjórinn hefði fengið sig fullsaddan af þeim,“ sagði Neville.

Hann sakaði fremstu menn Arsenal um að leggja sig ekki nógu mikið fram í leiknum gegn Liverpool og sagði að Martin Ødegaard hefði verið sá eini sem hefði reynt að pressa.

„Ég myndi ganga svo langt að segja að hinir hefðu verið grín. Það var engin orka. Calum Chambers, sá heiðarlegi drengur, var að reyna að ýta við Nicolas Pepe. Mér fannst vanta meira framlag frá þeim,“ sagði Neville.

„Mikel Arteta sagðist hafa verið brugðið. Ég held að hann hafi verið í áfalli yfir því sem hann sá frá fremstu mönnum sínum þegar Arsenal var ekki með boltann. Ég gæti sýnt tuttugu dæmi um það.“

Arsenal er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.