Lífið

Hannes Þór í viðtali við Variety: „Skemmtilegra en að verja víti frá Messi á HM“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tökur á kvikmyndinni hófust á síðasta ári og er þeim nú lokið.
Tökur á kvikmyndinni hófust á síðasta ári og er þeim nú lokið. @pegsus

Kvikmyndamiðillinn þekkti Variety fjallar um kvikmyndina Leynilögga sem verður frumsýnd á þessu ári í kvikmyndahúsum hér á landi.

Forsaga kvikmyndarinnar er sú að árið 2011 tóku þeir Auðunn Blöndal og Sverrir Þór Sverrisson þátt í Trailer-keppni í sjónvarpsþáttunum Auddi og Sveppi og gáfu í kjölfarið út stiklu úr kvikmynd sem þeir kölluðu Leynilöggan. Stiklan hjá Auðunni vakti mikla athygli og tíu árum seinna mun kvikmynd í fullri lengd koma út.

Auðunn Blöndal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson fara með hlutverk í kvikmyndinni og fjölmargir fleiri.

Landsliðsmaðurinn Hannes Þór Halldórsson leikstýrir Leynilöggunni en hann gerði slíkt hið sama á sínum tíma þegar stiklan kom út fyrir um tíu árum. Variety lýsir Hannesi sem manninum sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi á HM í Rússlandi árið 2018. Í grein Variety kemur fram að Leynilöggan verði til sýnis á kvikmyndahátíðinni Göteborg Nordic Film Market í Svíþjóð.

 „Áhugi minn og metnaður hefur alltaf verið að færa mig í áttina að kvikmyndagerð,“ segir Hannes Þór í samtali við Variety.

„Ég er enn knattspyrnumaður en þegar tækifærið kom að gera Leynilögguna varð ég að finna tíma og stökkva í djúpu laugina og ráðast í verkefnið.“

Hannes segir að það hafi staðið til að gera þessa kvikmynd í mörg ár.

„Ég er mjög spenntur að ljúka við þetta verkefni og ég held að frumsýningarkvöldið verði skemmtilegra en að verja víti frá Messi á HM,“ segir Hannes en Pegasus framleiðir kvikmyndina Leynilögga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×