Innlent

Enginn greindist með veiruna í gær

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sýnataka vegna Covid-19 hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sýnataka vegna Covid-19 hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Enginn greindist með covid-19 innanlands síðasta sólarhringinn enda var engin skipulögð sýnataka í gær, nýársdag. Enginn greindist heldur með veiruna á landamærum samkvæmt bráðabirgðatölum. Viðbúið er að nýjar tölur yfir fjölda smitaðra muni liggja fyrir á morgun.

Þrír greindust með kórónuveiruna hér á landi í fyrradag, samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum, þar af voru tveir í sóttkví.

Almennt virðist hafa gengið vel að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar yfir jólin að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann hrósar almenningi fyrir að hafa að mestu haldið sig við sína jólakúlu.

„Ég hugsa að við fáum tölur á morgun einhverjar en svona helgartölur, þær eru alltaf svolítið, það eru öllu færri sem mæta. Ég á í rauninni ekkert von á því að við fáum að sjá alvöru tölur fyrr en í lok næstu viku, þá svona erum við komin vel út úr fríinu og helginni og ættum að vera farin að sjá líka í rauninni hvernig við erum að koma undan áramótunum í raun og veru. Hvort að fólk sé með einkenni eftir áramótin og hvort að þetta sé einhvers staðar farið af stað. Það er náttúrlega alltaf hættan þegar fólk er ekki að mæta í prufur, þá náttúrlega getur þetta verið einhvers staðar þarna í felum,“ segir Rögnvaldur

„Ég held samt að heilt yfir þá sé alveg hægt að hrósa fólki með aðventuna og jólakúlurnar, í rauninni bara hvað það gekk vel og það er í rauninni bara í sjálfu sér bara mikið gleðiefni og frábært að það hafi gengið svona vel.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×