Menning

Segir listina hafa heilmikið gildi í kreppu og heimsfaraldri

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Listasafn Íslands býður gestum og gangandi frítt á safnið næstu daga.
Listasafn Íslands býður gestum og gangandi frítt á safnið næstu daga.

Starfsfólk listasafna landsins opnaði dyrnar fyrir gesti og gangandi í morgun eftir langa bið. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að í dag hækkuðu fjöldamörk samkomubannsins úr tuttugu í fimmtíu.

Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, segir listina hafa mikla þýðingu nú þegar kreppir að og býður almenningi frítt á safnið næstu daga.

„Það er mikill hugur í safnafólki um allt land. Það er alltaf ákveðin árstíðaskipti í maí þannig að við erum mjög ánægð að geta opnað, með takmörkunum sem við virðum. Hér er bæði aukið hreinlæti og við virðum fjarlægð á milli fólks. Við erum að huga að því hvernig viðburðadagskráin okkar geti tekið mið af því að taka vel á móti gestum okkar. Við teljum að söfn séu góðir staðir fyrir Íslendinga til að venja sig við að koma inn í almannarýmið. Við hlökkum til að fá að vera mótandi á þessum tímum.“

Listasafn Íslands býður landsmönnum frítt á safnið á næstu dögum. Harpa segir list hafa mikla þýðingu á tímum þegar kreppir að.

„Við eigum eflaust eftir að sjá sjá verða til annars konar innblástur í verkum listamanna víða um heim. Við vitum ekki nákvæmlega hvað verður en það er rétt að benda á að list hún blómstrar yfirleitt þegar kreppa herjar á. Það er heilmikil rödd sem felst í myndlistinni. Túlkun samfélagsins kemur í gegnum myndlistina og það er tungumál sem er alþjóðlegt. Myndlistin sem andleg uppspretta eða beinlínis íhugun, það er engin spurning, það er alltaf hluti af því að skoða myndlist.“


Tengdar fréttir

Þessir staðir opna á ný í dag

Tilslakanir á veiruaðgerðum stjórnvalda tóku gildi nú á miðnætti, aðfaranótt 4. maí. Fjöldamörk samkomubanns voru þannig hækkuð úr 20 í 50 manns og ýmiss konar þjónustu var þar með aftur gefið grænt ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×