Innlent

Kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar í sóttkví

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Ísafirði en nokkrir eru í sóttkví í bænum vegna kórónuveirunnar.
Frá Ísafirði en nokkrir eru í sóttkví í bænum vegna kórónuveirunnar. Vísir/Egill

Kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar er nú í sóttkví heima hjá sér að beiðni læknis vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Frá þessu er greint í færslu á Facebook-síðu tónlistarskólans en í gær var greint frá því að alls væru sex manns í sóttkví á Ísafirði vegna veirunnar.

Er fólkið í sóttkví samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis um að þeir sem nýkomnir eru úr ferðalögum frá svæðum sem skilgreind eru með mikla smitáhættu fari í heimasóttkví í alls fjórtán daga við heimkomu.

Að því er segir í færslu tónlistarskólans á Facebook er kennarinn við skólann algjörlega einkennalaus og því ekki ástæða til að ætla að hann sé sýktur. Þá sé starfsemi skólans að öðru leyti eðlilegt.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á blaðamannafundi í gær að um tuttugu manns væru í sóttkví hér á landi vegna kórónuveirunnar.

Um svokallaða heimasóttkví er að ræða og er úrræðið frekar íþyngjandi miðað við þær leiðbeiningar sem sóttvarnalæknir hefur gefið út.

Þannig á einstaklingur í sóttkví að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga. Hann má ekki fara út af heimilinu nema brýna nauðsyn beri til og hann má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.

Þá má einstaklingur í sóttkví ekki fara á mannamót eða út í búð en hann má fara í bíltúr á sínum einkabíl. Hann má þó ekki eiga samskipti við aðra í návígi í bíltúrnum, svo sem við bílalúgur veitingastaða.


Tengdar fréttir

Réttur ferða­langa vegna kórónu­veirunnar ó­líkur eftir að­stæðum

Réttur ferðamanna til að fá það tjón bætt sem þeir kunna að verða fyrir í tengslum við ferðalög vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 er ólíkur eftir aðstæðum, til dæmis eftir því hvort fólk er að ferðast á eigin vegum eða á bókað í pakkaferð.

Komið að vendipunkti í baráttunni gegn faraldrinum

Ný tilfelli af sjúkdómnum hafa verið staðfest víða um heim undanfarna daga og eru ný tilfelli nú orðin fleiri utan Kína en innan Kína, þar sem nýja kórónuveiran sem veldur sjúkdómum stakk fyrst upp kollinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×