Innlent

Straumhvörf í meðferð blóðsjúkdóma

Stofnfrumur hafa verið græddar í sex sjúklinga á Landspítalanum frá áramótum en þá var byrjað að gera slíkar aðgerðir hér á landi. Fjórir þeirra hafa læknast af sjúkdómum sínum en aðferðin er talin valda straumhvörfum í meðferð illkynja blóðsjúkdóma. Næsta skref er að rækta stofnfrumur hér á landi úr naflastrengjum nýbura. Hér er ekki um að ræða stofnfrumur úr fóstrum eða fósturvísum en slíkar meðferðir eru mjög umdeildar og víða bannaðar. Það sem hér um ræðir eru svokallaðar fullorðnar stofnfrumur sem teknar eru úr blóði sjúklinganna sem hafa þá eiginleika að geta myndað nýjar blóðfrumur. Vilhelmína Haraldsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum og blóðsjúkdómum, segir meðferðina felast í því að blóðmyndandi stofnfrumum er safnað úr blóði sjúklinga. Þær eru síðan geymdar og varðveittar í köfnunarefni en sjúklingurinn undirgengst lyfjameðferð við þeim illkynja sjúkdómi sem hann er haldinn. Vilhelmína segir meðferðina það kröftuga að ef stofnfrumurnar væru ekki geymdar þá væri ekki víst að blóðmyndun hæfist aftur hjá sjúklingnum. Þannig er hægt að gefa mun hærri skammta af lyfjunum en ella. Sjúklingurinn fær svo stofnfrumur sínar aftur að meðferð lokinni og þær sjá um að hefja blóðmyndun í líkamanum að nýju.   Meðferðin er fyrst og fremst notuð gegn eitlakrabbameini og mergæxlum. Sex sjúklingar hafa undirgengist meðferðina síðan hún hófst hér á landi og fjórir þeirra eru lausir við sjúkdóm sinn. Hingað til hafa íslenskir sjúklingar þurft að fara til útlanda í slíkar aðgerðir og fylgir því mikið álag á heilsufarið og aðstandendur. Vilhelmína segir að spítalinn og Blóðbankinn hafi verið ágætlega í stakk búin til að hefja meðferðina varðandi tækjakost og þekkingu. Næsta skrefið sé að hefja beinmergsskipti og flóknari stofnfrumuígræðslur hér á landi, meðal annars þar sem stofnfrumur eru teknar úr naflastreng nýfæddra barna. Hvað varðar að flytja frekari og þyngri meðferðir hingað til lands er ekkert ákveðið í því efni að sögn Vilhelmínu. Hún segir að þörf sé á lengri og betri reynslutíma áður en það sé gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×