Sport

Búast við því að Tom Brady semji við Buccaneers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady ætlar að spila með Tampa Bay Buccaneers á næsta tímabili sem kemur mörgum á óvart.
Tom Brady ætlar að spila með Tampa Bay Buccaneers á næsta tímabili sem kemur mörgum á óvart. Getty/ Maddie Meyer

Tom Brady í búningi Tampa Bay Buccaneers. Þetta hefði enginn getað ímyndað sér fyrir stuttu síðan en virðist nú vera að verða staðreynd.

Bandarískir fréttamiðlar hafa heimildir fyrir því að Tom Brady ætli að semja við Tampa Bay Buccaneers og spila með liðinu á næsta tímabili í NFL-deildinni.

Tom Brady gaf það út í gær að hann væri búinn að spila sinn síðasta leik með New England Patriots þar sem hann hafði spilað undanfarin tuttugu tímabil.

Tom Brady kom til New England Patriots árið 2000 og varð alls sex sinnum NFL-meistari með liðinu eða oftar en nokkur annar leikmaður í sögunni.

Brady verður 43 ára í haust þegar næsta tímabil á að hefjast og jafnaldrar hans eru löngu hættir að spila. Hann hefur hins vegar margoft talað um það að vilja spila þar til að hann væri 45 ára.

New England Patriots tókst ekki að fá hann til að framlengja samning sinn og hann er nú runninn út á samning og að leita sér að nýju liði.

Mörg félög vildu fá hann til sín en nú lítur út fyrir að Flórída liðið Tampa Bay Buccaneers hafi boðið best, ekki bara mestan pening heldur líka mest spennandi leikmannahóp.

Tom Brady fær þá upp í hendurnar tvo frábæra útherja í þeim Chris Godwin og Mike Evans en hann mun taka við stöðu leikstjórnandans Jameis Winston. Jameis Winston og félagar skoruðu mikið á síðustu leiktíð en hann var um leið sá leikstjórnandi í NFL-deildinni sem henti boltanum oftast frá sér.

Nú fer Tampa Bay Buccaneers úr því að vera með mann eins og Jameis Winston sem kastar boltanum ítrekað frá sér í leikmann eins og Tom Brady sem er ekki vanur að gera mörg mistök.

NFL

Tengdar fréttir

Hvert gæti Brady farið?

Framtíð Tom Brady er mikið í umræðunni vestanhafs enda er hann að gæla við að yfirgefa New England Patriots. Þá stendur eftir spurningin hvaða lið hentar honum í dag?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×