Lífið

„Hún er fullorðin en hún er samt barn“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Nína Snorradóttir sagði frá sinni reynslu í þættinum Spjallið með Góðvild.
Nína Snorradóttir sagði frá sinni reynslu í þættinum Spjallið með Góðvild. Góðvild

„Systir mín flytur til okkar 2018 og hafði alla tíð búið hjá móður okkar. Mamma er af þeirri kynslóð að hún vildi bara hafa hana hjá sér, vildi ekki að hún færi á sambýli,“ segir Nína Snorradóttir. Eftir að móðir Nínu féll skyndilega frá tók hún þroskaskerta systur sína að sér.

„Þá á hún ekki virka umsókn inni í kerfinu til að fá húsnæði fyrir sig. Þegar þetta gerist, þegar hún fellur frá, þá er ekkert sem grípur systur mína. Hún var bara heimilislaus. Það er einhvern veginn ekkert sem gerist í kerfinu.“

Nína sagði frá þeirra reynslu í þættinum Spjallið með Góðvild. Systir hennar er 44 ára gömul í dag en hún varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu sem veldur hennar fötlun og er með mikla þroskaskerðingu.

„Meðalþroskinn hennar er í kringum átta ára aldur.“

Aðeins þrjú ár eru á milli systranna.Mynd úr einkasafni

Fullorðin samkvæmt kennitölu

Nína gagnrýnir að hafa ekki verið með nein réttindi eins og varðandi veikindadaga þegar systir hennar var veik og þurfti umönnun.

„Það þarf að hjálpa henni að elda, það þarf að hjálpa henni að þrífa, það þarf að hjálpa henni að þvo þvott, það þarf að hjálpa henni að ganga frá. Þannig að ég myndi segja að hún þarf manninn með sér. En þegar hún kemur til okkar þá áttum við okkur á því að við erum svolítið réttindalaus gagnvart henni. Samkvæmt kennitölu er hún fullorðin.“

Nína segir að margt þurfi að breytast í kerfinu varðandi þroskaskerta einstaklinga eldri en 18 ára, sérstaklega varðandi sjúkratryggingamál, stuðning og búsetuúrræði.

„Hún er fullorðin en hún er samt barn.“

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Spjallið með Góðvild - Nína Snorradóttir

Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi á þriðjudögum. Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar sem er í stjórn Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu. 

Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna www.godvild.is eða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.