Innlent

Ekkert prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson eru þingmenn Samfylkingarinnar fyrir Reykjavíkurkjördæmin.
Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson eru þingmenn Samfylkingarinnar fyrir Reykjavíkurkjördæmin. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin í Reykjavík kallar eftir tilnefningum fyrir framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári. Ákveðið hefur verið að listi verði ákvarðaður með uppstillingu en ekki prófkjöri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni í Reykjavík.

Notast verður við „sænsku leiðina“ svokölluðu að þessu sinni og því ekki efnt til prófkjörs. Uppstillingarnefnd hefur verið falið að ganga frá framboðslistum en þetta samþykkti fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík á fundi sínum á fimmtudaginn.

„Í samþykktinni felst að kallað verður eftir tilnefningum frá flokksfélögum í Reykjavík, þar sem spurt er hvaða fólk þau vilja helst að skipi efstu sætin á listum Samfylkingarinnar í Reykjavík norður og suður. Að loknum tilnefningum fer fram könnun meðal flokksfólks í Reykjavík þar sem merkja skal við þá einstaklinga sem þátttakanda hugnast best af þeim sem tilnefnd eru. Ekki verður gefið vægi með tölum heldur notuð jafngild kjörmerki (x eða álíka). Niðurstöður könnunarinnar verða ekki birtar opinberlega en uppstillingarnefnd hefur þær hliðsjónar í sinni vinnu. Þessi aðferð hefur verið kölluð „sænska leiðin“ og hefur verið notuð hjá systurflokki okkar í Svíþjóð,“ segir í tilkynningunni.

Uppstillingarnefnd er þannig falið að setja saman „sigurstranglegan framboðslista“ fyrir komandi alþingiskosningar fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Stefnt er að því að tilnefningum og könnun ljúki fyrir jól og að framboðslistar verði tilbúnir snemma á nýju ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×