Lífið

Barnastjörnurnar og baráttan um peningana

Stefán Árni Pálsson skrifar
sfhsfhh

Leikkonan Shirley Temple var mikil barnastjarna sérstaklega á árunum 1935-38 og þá einhvern vinsælasta leikkona heims.

Hún fékk því vel greitt en var þá aðeins sjö til tíu ára. Foreldrar hennar stálu í rauninni af henni þremur milljónum dollara eða því sem samsvarar rúmlega fjögur hundruð milljónum króna. Temple fékk eðlilega ekki greitt sjálf, og var peningurinn færður foreldrum hennar.

Fjölmargar barnastjörnur hafa lent í því sama, stjörnur á borð við Macaulay Culkin, Ariel Winter og Jena Malone. Fjallað er um barnastjörnur sem voru féflettar á YouTube-síðunni TheRichest.

Culkin er metinn á fimmtíu milljónir dollara í dag. 

Á sínum tíma var Macaulay Culkin einn vinsælasti leikari heims eftir að hafa slegið í gegn í Home Alone myndunum. Þegar foreldrar hans skildu hófst baráttan um auðæfi Culkin, sem voru þá 17 milljónir dollarar. Móðir hans fékk forræði yfir drengnum og bjó hann hjá henni til 18 ára aldurs. Hann er metinn á 50 milljónir dollara í dag.

Leikkonan Mischa Barton sló í gegn í kringum aldamótin þegar hún kom fram í þáttunum The O.C. Eftir velgengni þáttanna kom í ljós að Barton hafði í raun aðeins fengið að sjá brot af launum sem hún fékk og var móðir hennar að taka mestallt til sín. Eftir það fór allt í háa loft á milli þeirra sem endaði með því að móðir hennar rak hana af heimili sínu, húsi sem hún í raun fjárfesti sjálf í í gegnum móður sína. Barton kærði móður sína en dró síðan kæruna til baka. Í dag talast þær engu að síður ekki við.

Mischa Barton sló í gegn í The O.C.

Leighton Meester fór með eitt af aðalhlutverkunum í þáttunum The Gossip Girl en var þá undir átján ára aldri. Æskan hennar var ekki hefðbundin og fæddist hún í fangelsi þegar móðir hennar sat inni. Móðir hennar stal af henni 7500 dollurum á mánuði í nokkur ár. Meester hélt ávallt að hún væri að greiða fyrir lækniskostnað fyrir bróður sinn en svo var ekki. Á endanum kærði leikkonan móður sína og vann málið að lokum.

Amanda Bynes var vinsæl barnastjarna hjá sjónvarpsstöðinni Nickelodeon en árið 2014 greindi leikkonan frá því á Twitter að foreldrar hennar hefðu haldið fjármunum hennar frá henni í töluverðan tíma og hún ætti ekki pening fyrir leigu eða nýjum fötum. Ástæðan var í raun andlegur óstöðuleiki Bynes og hefur hún í dag náð sáttum við foreldra sína.

Ariel Winter lék í öllum ellefu þáttaröðunum og var barn þegar hún byrjaði í þáttunum. Móðir hennar hélt launum hennar fyrir sig en hún var á tíma að fá greitt 100.000 dollara á þátt eða um 13,5 milljónir. Árið 2012 var leikkonan í raun fjarlægð af heimili sínu og fékk eldri systir hennar forræði, eftir margra ára andlegt ofbeldi. Systir hennar fékk í kjölfarið yfirumsjón yfir fjármunum hennar og árið 2015 vann Winter mál gegn foreldrum sínum og varð í kjölfarið sjálfráða.

Ariel Winter lék í ellefu þáttaröðum af Modern Family.

Shirley Temple lék í 44 kvikmyndum áður en hún varð 12 ára. Á þeim árum fékk Temple 250 dollara á viku í laun og tók móðir hennar 230 dollara af því. Á tíma þénaði hún 10.000 dollara á viku og fékk sáralítið af þeim fjármunum. Alltaf hélt hún að foreldrar hennar væru að leggja peningana til hliðar en þegar hún ákvað að hætta í leiklistinni aðeins 22 ára var til sáralítið.

Jena Malone lék í nokkrum kvikmyndum sem barn og árið 1999 kærði leikkonan móður sína fyrir það að hafa eytt um einni milljón dollara, eða 135 milljónum íslenskra króna, og það með hennar launum. Hún vann málið.

Hér að neðan má sjá umfjöllunina um umræddar barnastjörnur og fleiri til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×