Erlent

„Við höfum ekki hugmynd um hvaðan besta bóluefnið mun koma“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin í University of Massachusetts Medical School fyrr í mánuðinum. Rannsakandinn tekur blóð úr sjálfboðaliða sem tekur þátt í rannsókn og þróun bóluefnis gegn Covid-19.
Þessi mynd er tekin í University of Massachusetts Medical School fyrr í mánuðinum. Rannsakandinn tekur blóð úr sjálfboðaliða sem tekur þátt í rannsókn og þróun bóluefnis gegn Covid-19. Getty/Craig F. Walker

Enginn getur vitað fyrir víst hvaðan fyrsta örugga og áhrifaríka bóluefni gegn kórónuveirunni mun koma.

Þetta segir Jeremy Farrar, einn helsti sérfræðingur Breta í smitsjúkdómum, og leggur áherslu á að öryggið sé algjört forgangsatriði þegar kemur að þróun og prófunum bóluefna.

Rætt er við Farrar á vef Guardian en lyfjarisinn AstraZeneca hefur tímabundið frestað lokaprófunum á bóluefni eftir að einn þeirra sem tekið hafa þátt í prófunum á efninu fékk óútskýrðar aukaverkanir eftir að efninu hafði verið sprautað í hann.

AstraZeneca hefur unnið að þróun efnisins í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi og hafa miklar vonir verið bundnar við að leyfi fengist fyrir bóluefninu fyrir árslok.

Bóluefnið hafði þegar komist í gegnum tvö stig prófana en þriðja stigið, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, felst í prófunum á um þrjátíu þúsund sjálfboðaliðum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Suður-Afríku og Brasilíu.

Þróun bóluefna mjög áhættusamt ferli

Farrar segir að þróun bóluefna sé mjög áhættusamt ferli og að ekki sé hægt að treysta á aðeins eitt bóluefni og þróun og tilraunir með því. Þá sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þótt öll bóluefnin sem séu í þróun komist á síðasta stig prófana þá sé ekki þar með sagt að þau muni öll koma á markað.

Þá eigi ekkert land að gera ráð fyrir því að stjórnvöld þar geti keypt eins mikið af bóluefni og þau telji sig þurfa, án þess að hugsa um aðrar þjóðir heims.

„Einhvers konar þjóðernishyggja þegar kemur að bóluefnum og bólusetningum hefur ekkert gildi. Það er ekki leiðin út úr faraldrinum og mun ekki hraða á hlutunum heldur í raun hægja á þeim. Og við höfum ekki hugmynd um hvaðan besta bóluefnið, sem er öruggt og áhrifaríkt, mun koma,“ segir Farrar.

Talsmaður AstraZeneca lagði áherslu á það í samtali við Guardian að óútskýrðu aukaverkanirnar hefðu aðeins komið fram hjá einum þátttakanda í rannsókninni. Þá væri það alvanalegt að prófunum á bóluefni væri frestað tímabundið.

Óháðir aðilar hafa verið fengnir til þess að rannsaka hvort að aukaverkanirnar tengist bóluefninu eða ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×