Lífið

Viktor Þór hvetur karla til að fara að prjóna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Það skemmtilegasta sem Viktor Þór Reynisson í Grindavík gerir er að sitja í hægindastólnum sínum og prjóna lopapeysur. Þá segir hann prjónaskapinn hafa róandi áhrif á sig á tímum kórónaveirunnar.

Það er gaman að koma á heimili Viktors og Önnu Kristínar í Grindavík og sjá allt handverkið á borðinu, sem Viktor hefur prjónað. Fallegar lopapeysur og húfur.

„Þetta er bara gaman, það er betra að hafa þetta heldur en ekki neitt. Ég er mjög stoltur af mér að standa í þessu, ég vildi bara að það væru fleiri karlar í þessu að prjóna, maður verður að reyna að koma af stað einhverjum klúbb hér í Grindavík, sjá hvað gerist“, segir Viktor Þór.

Lopapeysurnar og húfurnar hjá Viktori Þór eru virkilega fallegar. Hann prjónar aðallega eftir pöntunum frá vinum og vandamönnum. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Viktor Þór og Anna Kristín, eiginkona hans prjóna mikið saman og sækja öll prjónakvöld sem þau komast á og hafa farið á prjónahátíðir í útlöndum.

En hvað er Viktor Þór lengi að prjóna lopapeysu?

„Það fer bara alveg eftir því hvað ég er iðinn, ég er alveg upp í sex vikur og upp í fimm mánuði, eins og eina peysuna, sem ég gerði með munstri frá Hjaltlandseyjum, það tók mig fimm mánuði.

Anna Kristín er að sjálfsögðu mjög stolt af sínum manni enda kenndi hún honum að prjóna 2018.

„Jú, ég er mjög stolt af honum, hann tók þetta með glæsibrag þegar hann byrjaði og hefur gert mjög vel og handverkið eftir hann er mjög fallegt“, segir hún.

Anna Kristín og Viktor Þór einbeitt við prjónaskapinn en þau prjóna mjög mikið saman og nota þá tímann til að spjalla saman um daginn og veginn. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Viktor segir að nú sé upplagt fyrir alla karla að byrja að læra að prjóna því þá gleymi þeir um leið öllu veseninu í kringum kórónaveiruna, prjónaskapurinn veiti svo mikla hugarró og sé á við góðan jógatíma.

„Já, þetta skiptir gríðarlegu málin fyrir hausinn á manni að geta einbeitt sér að einhverju öðru heldur en heimsins málum“, segir Viktor Þór.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.