Innlent

Rann­sak­endur í Guð­mundar- og Geir­finns­málum bera vitni í máli Guð­jóns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aðalmeðferð í máli Guðjóns Skarphéðinssonar gegn ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. mars næstkomandi.
Aðalmeðferð í máli Guðjóns Skarphéðinssonar gegn ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. mars næstkomandi. vísir/vilhelm

Andri Árnason, settur ríkislögmaður í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, hyggst leiða tvo menn sem komu að rannsókn málanna á sínum tíma sem vitni við aðalmeðferð í máli Guðjóns Skarphéðinssonar gegn ríkinu. Aðalmeðferðin fer fram þann 17. mars næstkomandi.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en Guðjón fer fram á 1,3 milljarða í bætur frá ríkinu vegna Geirfinnsmálsins. Ríkið krefst sýknu af öllum kröfum Guðjóns.

Að því er fram kemur í Fréttablaðinu greindi ríkislögmaður frá því við undirbúningsþinghald í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær að hann ætlaði að leiða tvö vitni fyrir dóminn, ef heilsa þeirra leyfir.

Hann vildi að svo stöddu ekki gefa upp nöfn vitnanna til að vernda þau en sagði þó að um væri að ræða einstaklinga sem hefðu komið að rannsókn málanna.

„Ég vil ekki að þeir verði fyrir einhverju aðkasti ef þeir ætla að koma hér fyrir dóm,“ sagði Andri. Gerði dómari honum að tilkynna um nöfn vitnanna viku áður en aðalmeðferðin hefst.

Að því er segir í frétt Fréttablaðsins er ekki víst hvort Guðjón sjálfur gefi skýrslu við aðalmeðferðina. Ítrekaði ríkislögmaður þá áskorun sína að stefnandi myndi mæta sjálfur fyrir dóm og gefa skýrslu um þau atvik málsins sem hann byggir á.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagði óvíst að skjólstæðingur hans ætti heimangengt vegna slæmrar heilsu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.