Lífið

Norska Euro­vision-goð­sögnin Jahn Teigen er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Jahn Teigen í lokakeppni Eurovision árið 1978 þar sem hann flutti lagið Mil eftir mil.
Jahn Teigen í lokakeppni Eurovision árið 1978 þar sem hann flutti lagið Mil eftir mil.

Norski söngvarinn og skemmtikrafturinn Jahn Teigen er látinn, sjötugur að aldri. Norskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi látist í sænska bænum Ystad í gærkvöldi.

Tónlistarferill Teigen spannaði rúma hálfa öld, en hann kom að útgáfu rúmlega sextíuplatna, þar af 38 sólóplatna en hinar með sveitunum Popol Vuh/Ace, Herodes Falsk og Prima Vera og svo söngkonunni Anita Skorgan.

Teigen sló í gegn árið 1978 þegar hann vann norsku söngvakeppnina og varð fulltrúi Noregs í Eurovision með laginu Mil eftir mil. Hann hlaut núll stig í keppninni, en lagið naut engu að síður mikilla vinsælda í Noregi. Teigen tók þátt í norsku undankeppni Eurovision alls sextán sinnum og var fulltrúi Norðmanna í lokakeppninni þrisvar - 1978, 1982 og 1983.

Teigen lætur eftir sig dótturina Sara Skorgan Teigen sem hann eignaðist með fyrrverandi eiginkonu sinni, söngkonunni Anita Skorgan.

Abid Q. Raja, menningarmálaráðherra Noregs, minnist Teigen á Twitter þar sem hann segir að „þjóðargersemi okkar“ sé horfin á braut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×