Innlent

Á­ætlanir til um inn­viða­upp­byggingu upp á tæpa þúsund milljarða

Heimir Már Pétursson skrifar

Ríkisstjórnin ætlar að setja tæpa þrjátíu milljarða króna til uppbyggingar innviða þar sem ýmsir veikleikar komu í ljós í óveðrum í desember. Forsætisráðherra segir að á næstu tíu árum eigi allir landsmenn að búa við sama raforku- og fjarskiptaöryggi.

Átakshópur sem ríkisstjórnin skipaði eftir óveður í desember hefur skilað frá sér yfirgripsmikilli greiningu og tillögum um uppbyggingu helstu innviða í raforku- og samskiptakerfum landsmanna sem og snjóflóðavarna. Samkvæmt skýrslunni eru til áætlanir hjá ráðuneytum, stofnunum, ríkisfyrirtækjum og einkaaðilum í fjarskiptum upp á 900 milljarða á næstu tíu árum.

Framlag ríkisstjórnarinnar upp á 27 milljarða króna bætist þar ofan á. Uppbyggingu snjóflóðavarna verður einnig flýtt um 20 ár og á að vera lokið árið 2030. Þá verður lagningu rafstrengja í jörð flýtt, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Við erum að tala um eftir fimm ár. Þá sé þessari lagningu jarðstrengja um land allt lokið. Það eru stóru tíðindin; flýting jarðstrengjanna annars vegar og flýting snjóflóðavarna hins vegar. Það var ákveðið að taka þær sérstaklega fyrir í þessari vinnu eftir að snjóflóðin féllu fyrir vestan,“ segir Katrín.

Flókið regluverk tefur uppbyggingu

Aðgerðahópurinn listar upp 540 aðgerðir sem grípa þurfi til um allt land og er hægt að kynna sér þær á innvidir2020.is fyrir hvert landsvæði. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að það hafi verið nauðsynlegt að horfast í augu við þá veikleika sem óveðrið leiddi í ljós.

„Við þurfum líka að horfast í augu við það að við höfum sjálf verið að gera okkur þetta erfitt. Með of ströngu og of flóknu regluverki. Þess vegna er það ein af megin niðurstöðunum hér að við þurfum að einfalda leyfisveitingaferli. þannig að þær stofnanir sem við höfum falið það hlutverk að sjá um öryggi landsmanna þegar að þessum þáttum kemur geti rækt það hlutverk,“ sagði Bjarni.

Hann nefndi Landsnet sérstaklega í þessu samhengi.

„Ef við skoðum bara fyrirtæki eins og Landsnet og þær áætlanir sem það fyrirtæki hefur haft frá stofnun um framkvæmdir og berum það saman við það sem hefur raungerst, þá dregst upp mjög dapurleg staða,“ sagði fjármálaráðherra.

Þessar aðgerðir eru vegna veikleika sem óveður leiddu í ljós. En Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir ríkisstjórnina boða víðtækari innviðauppbyggingu í samgöngum og fleira.

„Eins og forsætisráðherra kom hér inn á að í tengslum við fjármálaáætlun sem kynnt verður í lok næsta mánaðar. Þar munum við koma fram með frekari aðgerðir, efnahagsaðgerðir til að takast á við það,“ sagði Sigurður Ingi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.