Lífið

Daði og Gagnamagnið á leið til Rotterdam í maí

Eiður Þór Árnason skrifar
Þetta er í annað sinn sem Daði og Gagnamagnið keppir í Söngvakeppninni.
Þetta er í annað sinn sem Daði og Gagnamagnið keppir í Söngvakeppninni. Skjáskot

Daði og Gagnamagnið bar sigur úr býtum á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar í kvöld og mun lag þeirra Think About Things verða framlag Íslendinga í Eurovison í maí næstkomandi.

Fimm atriði kepptu um heiðurinn í kvöld en ásamt Daða komst hljómsveitin Dimma í úrslitaeinvígið með lag sitt Almyrkvi.

Þetta er í annað sinn sem Daði og Gagnamagnið keppir í Söngvakeppninni en árið 2017 laut hópurinn í lægra haldi fyrir Svölu Björgvinsdóttur með lagið Paper í einvígi.

Símaatkvæði landsmanna og tíu manna alþjóðleg dómnefnd réðu að þessu sinni hvaða tvö lög komust í einvígið. Að því loknu voru lögin tvö flutt aftur og fram fór hrein símakosning. Líkt og á síðasta ári héldu lögin þeim atkvæðum sem þau hlutu í fyrri símakosningu áhorfenda.

Unnsteinn Manúel Stefánsson söngvari, Klemens Nikulás Hannigan tónlistarmaður og Regína Ósk Óskarsdóttir söngkona voru á meðal þeirra sem sátu í alþjóðlegri dómnefnd að þessu sinni.

Lag Daða hefur notið mikilla vinsælda fram að keppni og vakið nokkra athygli utan landsteinanna. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva mun í ár fara fram í Rotterdam í Hollandi.


Tengdar fréttir

Independent fjallar um óvæntar vinsældir Daða Freys

Daði Freyr Pétursson tónlistarmaður, sem tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins í ár með laginu Think About Things, ræðir óvæntar vinsældir framlagsins erlendis í viðtali við breska miðilinn Independent í dag.

Sænskir áhrifavaldar að missa sig yfir Daða

Svo virðist sem sænskir áhrifavaldar séu hreinlega að missa sig yfir lagi Daða Freys og Gagnamagninu í Söngvakeppninni og má það rekja til áhuga Söru Linderholm á bandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×