Enski boltinn

Manchester United sækir um leyfi til að breyta Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson stúkan á Old Trafford.
Sir Alex Ferguson stúkan á Old Trafford. Getty/Matthew Ashton

Manchester United hyggur á breytingar á heimavelli sínum Old Trafford og hefur nú sótt um leyfi fyrir þeim.

Forráðamenn Manchester United vilja setja upp rimlagirðingar í einu horni vallarins þar sem áhorfendur fá tækifæri til að standa á meðan leik stendur.

Verkefnið er hluti af baráttumálinu um að bjóða aftur upp á möguleikann á að standa á fótboltavöllum Englands undir slagorðinu „safe standing“ eða „örugg stæði“.

Á áætlun er að skipta út sætum í norðaustur horni vallarins.Á árum áður þá stóðu áhorfendur á fótboltaleikjum á Englandi en eftir Hillsborough slysið hræðilega þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool krömdust til bana þá var markvisst unnið að því að skipta öllum stæðum út fyrir sæti.

Á síðustu árum hafa menn leita leiða til að bjóða aftur upp á stæði en nú með öryggi áhorfenda að leiðarljósi.

Nýr leikvangur Tottenham býður upp á „safe seating“ eða „örugg sæti“ sem er svæði á vellinum sem auðveldlega væri hægt að breyta í örugg stæði fái ensku liðin leyfi til að bjóða upp á slíkt svæði fyrir standandi áhorfendur. Wolves hefur einnig útbúið stæði á Molineux vellinum fyrir standandi áhorfendur.

Leyfi fyrir að vera með standandi áhorfendur er á réttri leið innan kerfisins og er mjög líklegt að örugg stæði verði samþykkt á næstunni.

Fyrir nokkrum dögum kom út skýrsla frá stjórnvöldum þar sem slíkir rimlar, eins og Manchester United vill setja upp á Old Trafford, eru taldir hafa jákvæð áhrif á öryggi áhorfanda á leikvöllunum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.