Enski boltinn

Grét í viku þegar Arsenal vildi hann ekki en sama fé­lag borgar nú marga milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eberechi Eze fagnar marki með Crystal Palace en hann hefur farið á kostum með liðinu síðustu árin.
Eberechi Eze fagnar marki með Crystal Palace en hann hefur farið á kostum með liðinu síðustu árin. EPA/DANIEL HAMBURY

Ein athyglisverðasta endurkoman í langan tíma í ensku úrvalsdeildinni er sú að Eberechi Eze sé aftur orðinn leikmaður Arsenal.

Aftur leikmaður Arsenal segja eflaust einhverjir hissa. Jú Eze var einu sinni leikmaður hjá unglingaliði Arsenal en félagið hafði ekki trú á honum þá.

Eze hefur sagt frá því að Arsenal lét hann fara þegar hann var þrettán ára gamall. Afskrifaður af félaginu sem honum dreymdi um að spila fyrir.

Hann sagðist hafa grátið í viku á eftir, algjörlega niðurbrotinn. Það tók líka tíma fyrir kappann að vinna sig upp en fótboltadraumurinn dó aldrei.

Hann reyndi líka fyrir sér hjá unglingaliðum Fulham, Reading og Millwall en ekkert gekk að fá atvinnumannasamning.

Tækifærið kom síðan hjá Queens Park Rangers og þar fékk hann sitt fyrstu tækifæri í ensku b-deildinni.

Crystal Palace keypti Eze frá QPR í ágúst 2020 og borgaði sautján milljónir punda fyrir hann. Þar fékk hann tækifæri til að spila í ensku úrvalsdeildinni og þar varð hann að einum skeinuhættasta leikmanni deildarinnar.

Arsenal er nú að borga meira en sextíu milljónir punda fyrir hann en með bónusgreiðslum gæti upphæðin endaði í 67,5 milljónum punda eða meira en ellefu milljörðum íslenskra króna.

Arsenal kom inn og stal Eze af Tottenham á síðustu metrunum. Miðað við fyrri sögu þá er ekkert skrýtið að Eze hafi valið Arsenal. Eftir stóru vonbrigðin fyrir fjórtán árum þá hefur honum tekist að komast þangað sem hann dreymdi um að vera þegar fótboltaáhuginn fæddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×