Erlent

Risavaxinn ísjaki brotnaði af Suðurskautslandinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem Sentinel 1-gervitunglið náði af Furueyjujöklinum áður en jaki brotnaði úr honum í síðustu viku.
Mynd sem Sentinel 1-gervitunglið náði af Furueyjujöklinum áður en jaki brotnaði úr honum í síðustu viku. Evrópska geimstofnunin/Sentinel 1

Borgarísjaki sem brotnaði af Furueyjujöklinum á vestanverðu Suðurskautslandinu um helgina er töluvert stærri að flatarmáli en Reykjavík. Vísindamenn óttast að kelfing af þessu tagi verði tíðari eftir því sem herðir á hnattrænni hlýnun af völdum manna.

Gervihnattamyndir benda til þess að um 300 ferkílómetra stór jakinn hafi brotnað af jöklinum einhvern tímann á milli laugardags og sunnudags, að sögn Washington Post. Furueyjujökullinn er sagður á meðal þeirra jökla á Suðurskautslandinu sem hopa hvað hraðast.

Gríðarlegt magn íss liggur fyrir innan Furueyjujökulinn og Thwaites-jökulinn í grendinni. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA áætlar að ísinn við jöklana tvo dugi til að hækka yfirborð sjávar um allt að 1,2 metra á heimsvísu.

Kelfingin er rakin til tveggja sprungna sem sáust fyrst í jöklinum með gervihnöttum í fyrra. Stóri jakinn var ekki langlífur heldur brotnaði hann fljótt upp í minni hluta sem eru sagðir reka á haf út.

Óttast er að hop jöklanna geri ísbreiðuna að baki þeim óstöðuga. Það gæti hrint af stað vítahring ístaps þegar ísinn rennur fram og stærri hluti hans kemst í snertingu við hlutfallslega hlýjan sjó.

Evrópska geimstofnunin (ESA) telur að Furueyjujökulinn skríði nú fram um tíu metra á dag. Skriðið eykur hættuna á sprungumyndun sem getur valdið frekara ístapi. Meiriháttar kelfing átti sér stað í jöklinum á fjögurra til sex ára fresti en nú verður hún nær árlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×