Enski boltinn

Segir Liverpool þurfa bara einn leikmann og nafn hans byrjar á „M“ og endar á „bappe“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í fótboltanum.
Kylian Mbappé á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í fótboltanum. Getty/Erwin Spek/

Liverpool liðið er í það góðum málum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar að liðið þarf ekki mikið á nýjum leikmönnum að halda. Það virðist þó vera að sumir stuðningsmenn Liverpool láti sig dreyma um að fá einn mest spennandi leikmann heims til félagsins.

Sky Sports fékk Liverpool stuðningsmanninn Big Zuu um að segja sína skoðun á því hvaða leikmann vantar í Liverpool liðið.

„Ég held að við þurfum ekki á nýjum leikmanni að halda því leikmannahópurinn í dag er svo góður og ég sé enga þörf til að koma með nýjan mann inn,“ sagði Big Zuu.

„Ég held að nýr leikmaður gæti ekki gert liðið betra nema kannski ákveðinn leikmaður,“ sagði Big Zuu. Hvaða leikmenn þarf Liverpool að ná í til að halda yfirburðum sínum næstu tímabil?

„Það er einn leikmaður sem við þurfum. Nafnið hans byrjar á „M“ og endar á „bappe“. Ég held að allt myndi breytast ef við fengjum Mbappe,“ sagði Big Zuu eins og sjá má hér fyrir neðan.



Big Zuu vill líka helst fá inn annan miðvörð við hlið Virgil van Dijk og það þótt hann sé ánægður með Joe Gomez, Joël Matip og Dejan Lovren.

Hann nefnir sérstaklega Kalidou Koulibaly hjá Napoli. Big Zuu kipptist allur til þegar sá sem tók viðtalið við hann nefndi möguleikann á því að Liverpool væri með þá Virgil van Dijk og Kalidou Koulibaly í miðri vörninni og Kylian Mbappé í fremstu víglínu.

„Það gerir mig svakalega spenntan,“ sagði Big Zuu hlæjandi. Big Zuu ræðir líka aðdáun og samband sitt við fyrirliðann Jordan Henderson.

Það má síðan deila um það hversu raunhæft er fyrir Liverpool að kaupa Kylian Mbappé og þurfa líklega að greiða metfé fyrir hann.

Jürgen Klopp hefur ekki gert mikið af því að kaupa dýra leikmenn eða leikmenn sem eru orðnir stórstjörnur á heimsvísu. Leikmenn Liverpool hafa orðið það undir leiðsögn hans.

Kylian Mbappé er enn bara 21 árs gamall en hann hefur þegar orðið heimsmeistari með Frökkum og hefur skorað 81 mark í 111 leikjum í öllum keppnum með franska stórliðinu Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×