Enski boltinn

Réðust á hús Ed Woodward

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ed Woodward með Sir Alex Ferguson á leik hjá Manchester United.
Ed Woodward með Sir Alex Ferguson á leik hjá Manchester United. Getty/Xavier Laine

Ed Woodward, framkvæmastjóri Manchester United, er afar óvinsæll maður hjá stuðningsmönnum Manchester United en nú staðan orðin mun alvarlegri, eftir skemmdarverk í gærkvöldi.

Ráðist var á hús Ed Woodward í Cheshire í gærkvöldi og á meðan sungu árásarmennirnir um það að Ed Woodward muni deyja. Það eru sömu ljótu söngvar og hafa heyrst á leikjum Manchester United að undanförnu.

Ed Woodward er giftur maður og á tvö ung börn. Hann var ekki heima hjá sér þegar hann fékk þessa óskemmtilegu heimsókn.



Manchester United gaf út þá yfirlýsingu í framhaldinu að hver sem gerist sekur um lögbrot eða átroðning verði settur í ævilangt bann frá leikjum liðsins.

„Það er eitt fyrir stuðningsmenn að hafa skoðun en það er allt annað að fremja skemmdarverk og ógna lífi fólks. Það er engin afsökun fyrir slíku,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.



„Við vitum að fótboltaheimurinn mun standa sameinaður að baki okkur á meðan við vinnum með lögreglunni í Manchester til að finna út hvaða menn stóðu að þessari ástæðulausu árás,“ sagði enn fremur í yfirlýsingunni.

Óvinsælir Ed Woodward hjá stuðningsmönnum Manchester United hafa aukist dag frá degi á meðan gengi liðsins hefur dalað og hverjum knattspyrnustjóranum á fætur öðrum hefur mistekist að koma liðinu aftur í toppbaráttuna. Woodward hefur verið kennt um þessa slæmu þróun.

Manchester United er nú í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar 33 stigum á eftir toppliði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×