Enski boltinn

Eze fari til Spurs fyrir viku­lok

Valur Páll Eiríksson skrifar
Eze fagnar marki á Tottenham-vellinum. Hann gæti gert það í hvítri treyju í vetur.
Eze fagnar marki á Tottenham-vellinum. Hann gæti gert það í hvítri treyju í vetur. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Fátt virðist geta komið í veg fyrir skipti enska fótboltamannsins Eberechi Eze frá Crystal Palace til Tottenham. Palace getur átt von á því að missa tvo lykilmenn fyrir gluggalok en félagið hefur gott sem ekkert styrkt sig í sumar.

Daily Mail segir frá því að skipti Eze frá Palace til Tottenham verði kláruð á næstu dögum, og líklega fyrir helgina. Kaupverð sé nærri 50 milljónum sterlingspunda.

Eze hefur ítrekað verið orðaður frá Palace undanfarna félagsskiptaglugga enda verið á meðal bestu leikmanna liðsins. Tottenham leitar sóknartengiliðs eftir að James Maddison sleit krossband á dögunum.

Crystal Palace vann fyrsta titilinn í sögu félagsins, enska bikartitilinn, í vor og fylgdi því eftir með sigri á Liverpool um Samfélagsskjöldinn fyrir rúmri viku. Liðið tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í vetur en hefur þrátt fyrir það aðeins bætt við sig tveimur leikmönnum í sumar.

Borna Sosa, vinstri bakvörður, var keyptur á þrjár milljónir punda frá Ajax og varamarkvörðurinn Walter Benítez kom frítt frá PSV Eindhoven.

Auk brotthvarfs Eze þykir líklegt að fyrirliðinn Marc Guéhi verði seldur til Liverpool, en hann er sagður hafa hafnað Newcastle United.

Palace sér því fram á að þurfa að fylla skörð besta varnarmanns síns auk mest skapandi leikmanns liðsins fram á við.

Crystal Palace gerði markalaust jafntefli við Chelsea í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn var. Liðið fær Nottingham Forest í heimsókn á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×