Innlent

Maðurinn sem grófst í snjóflóðinu fluttur á Landspítalann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leitarsvæðinu í dag. Maðurinn grófst í flóði í efra horninu vinstra megin á myndinni.
Frá leitarsvæðinu í dag. Maðurinn grófst í flóði í efra horninu vinstra megin á myndinni. Vísir/egill

Maðurinn sem grófst undir snjóflóði í Móskarðshnjúkum skömmu eftir hádegi í dag er fundinn og var fluttur á Landspítalann í Fossvogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar á þriðja tímanum, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan hans. Tveir samferðamenn hans voru fluttir með sjúkrabifreið á Landspítalann.

Allt tiltækt lið slökkviliðs, lögreglu og björgunarsveita á suðvesturhorninu var kallað út vegna snjóflóðsins. Þrír menn voru saman á göngu á svæðinu þegar snjóflóðið féll og einn þeirra grófst undir flóðinu. Í fyrstu var talið að mennirnir hefðu verið tveir saman.

Flóðið féll við gönguleiðina upp á Móskarðshnjúka, sunnan megin. Fjöldi björgunarsveitarmanna og annarra viðbragðsaðila hefur verið að störfum á vettvangi í dag, ásamt leitarhundum. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út sem og sérsveit ríkislögreglustjóra.

Fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang um og eftir klukkan eitt og fyrsta verkefni þeirra var að meta aðstæður, tryggja öryggi og hefja leit.

Móskarðshnjúkar sjást hér á korti. Flóðið féll við gönguleiðina upp að hnjúkunum. Vísir/Hjalti

Aðgerðastjórn lögreglu á höfuðborgarsvæðinu hefur verið virkjuð vegna snjóflóðsins. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni féll lítið snjóflóð á sömu slóðum í gær. Nokkur lítil snjóflóð hafa einnig fallið í gær og dag í Mosfelli og Skálafelli.

Þá er hættustig snjóflóða fyrir Suðvesturland á gulu og mælir Veðurstofan með því að útivistarfólk sýni ýtrustu aðgæslu við ferðir í fjalllendi á Suðvesturlandi þar sem snjóflóð geta fallið.

Í tilkynningu frá lögreglu á fjórða tímanum kemur fram að mjög mikil snjóflóðahætta sé á þessum slóðum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 15:18 en fylgjast má með nýjustu vendingum í vaktinni hér fyrir neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.