Innlent

Rúta með 21 barn út af þjóðveginum nærri Varmahlíð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona var staðan á þjóðvegum landsins um klukkan fimm í dag.
Svona var staðan á þjóðvegum landsins um klukkan fimm í dag. Vegagerðin

Óhapp varð á hringveginum nærri Silfrastöðum um tíu til fimmtán kílómetra suðaustur af Varmahlíð um fjögurleytið í dag þegar rúta fór útaf veginum í hálku.

Svavar Þór Birgisson, slökkviliðsstjóri á Norðurlandi vestra, segir í samtali við fréttastofu að engin slys hafi orðið á farþegum. Um er að ræða 21 barn á aldrinum 14-16 ára auk ökumanns sem voru á leiðinni norður á Akureyri.

Vegurinn frá Varmahlíð og yfir Öxnadalsheiði er lokaður sem stendur og hafa börnin verið flutt í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum í Varmahlíð. Rútan er föst úti í vegakanti og verður ekki reynt að fjarlægja hana strax enda mikil hálka og vindur.

Svavar Þór segir að reiknað sé með því að það lægi með kvöldinu og því mögulegt að krakkarnir komist til Akureyrar í kvöld.

Færð á vegum á landinu er slæm og lokanir víða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×