Innlent

Hitamældur í hvert sinn sem hann kemur heim til sín

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína.
Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína.

Sendiherra Íslands í Kína segir samstarf stjórnvalda og almennings á Íslandi hafa skilað jafn góðum árangri í baráttunni við kórónuveiruna og járnaginn í Kína. Íslenskum fyrirtækjum hafi vegnað ágætlega í Kína í þessum faraldri og áhugi á nýtingu jarðvarma aukist til muna þar í landi

Sendiherrann segir ástandið þar nú heldur skárra en víða í heimunum sökum strangra sóttvarnaráðstafana. Allir gangi með grímur og krafðir um staðfestingu á að þeir séu einkennalausir.

„Í fyrsta lagi er hver einasti maður á ferli með grímu. Ef maður fer inn í verslanahverfi eða miðstöðvar þarf maður að sýna app í símanum sínum til að sýna að maður sé einkennalaus. Síðan er mjög gjarnan tekið hitastig líka, tekið niður símanúmer og ýmsar upplýsingar. Ég bý í fjölbýlishúsi spottakorn frá sendiráðinu og það er tekið hitastig á mér í hvert einasta skipti sem ég kem heim,“ segir Gunnar Snorri Gunnarsson.

Öllum útlendingum er bannað að koma til Kína.

„Í raun og veru þarf sérstakar ástæður til að fara aftur til Kína. Allar vegabréfsáritanir og dvalarleyfi hafa fallið úr gildi. Ég veit um fólk sem bæði hefur verið viðskiptum og hefur verið lengi, sem er strandaglópar á Íslandi því áritun þeirra var felld úr gildi. Íslenskir námsmenn sem fóru í frí í kringum kínverska nýárið hefur ekki getað snúið til baka sem og þeir sem fóru heim vegna veikinda í fjölskyldu hafa ekki getað farið aftur til Kína.“

Gunnar er í fríi á Íslandi og mun fá að snúa aftur til Kína sökum stöðu hans sem sendiherra. Hann segir dvölina á Íslandi hafa verið dásamlega.

„Ég hef oft sagt það sjálfur að fyrst þá gat maður ekki annað en dáðst að því hvað Kínverjar tóku þetta föstum og öruggum tökum. Ég hef hugsað með mér hvort þetta væri hægt annarstaðar. Mér sýnist að hér á Íslandi hafi náðst alveg sami árangur með samstarfi stjórnvalda og almennings en ekki þessum járnaga sem ríkir í Kína.“

Íslenskum fyrirtækjum hefur vegnað ágætlega í Kína í þessum faraldri að sögn Gunnars. Þar á meðal er mikill gangur hjá íslenska fyrirtækinu Arctic Green Energy sem hefur komið að uppbyggingu hitaveitna í 60 borgum í Kína. Gunnar segir áhugan á nýtingu jarðvarma í Kína hafa aukist í faraldrinum.

„Eitt af því sem kínversk stjórnvöld eru að gera til að hleypa lífi í efnahaginn aftur er að auka framkvæmdir og fjárfestingar í innviðum. Það hefur komið ágætlega út fyrir framkvæmdir sveitarfélaga og héraðsyfirvalda hér og þar í Kína. Þetta hefur jafnvel orðið til að auka uppbyggingu jarðvarma í Kína.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×