Innlent

Hækka aldurstakmark á tjaldstæðum í 20 ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hátíðin Ein með öllu fer fram á Akureyri ár hvert.
Hátíðin Ein með öllu fer fram á Akureyri ár hvert. Vísir/vilhelm

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu á Akureyri verður haldin með óhefðbundnu sniði á Akureyri nú um verslunarmannahelgina vegna faraldurs kórónuveiru. Þá verður aldurstakmark á tjaldsvæðum bæjarins hækkað í 20 ár. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Akureyrarbæ, Vinum Akureyrar og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra.

Í tilkynningu segir að í boði verði „litlir, fjölskylduvænir viðburðir víðsvegar um bæinn“ og tryggt að aldrei verði fleiri en 500 samankomnir á hverjum stað, líkt og reglur segja til um.

„Stórir útitónleikar í miðbænum verða ekki á dagskrá né heldur Sparitónleikar á flötinni við Samkomuhúsið á sunnudagskvöld. Þá verður skemmtistöðum lokað kl. 23 öll kvöld eins og reglur segja til um,“ segir í tilkynningu.

Á tjaldsvæðum bæjarins verður aldurstakmark jafnframt hækkað í 20 ár „í því skyni að auðvelda fjöldatakmarkanir og forgangsraða í þágu fjölskyldufólks.“

Þá er hafti eftir Kristjáni Kristjánssyni yfirlögregluþjóni á Akureyri að lögreglan á Norðurlandi eystra verði með aukinn viðbúnað um verslunarmannahelgina.

„Bæði til að fylgjast með umferð á þjóðvegum umdæmisins og eins til að fylgjast með að fjöldatakmörkunum og öðrum samkomutakmörkunum sé framfylgt. Þá vill lögreglan beina því til allra að fara varlega og huga vel að eigin sóttvarnaráðstöfunum. Enn eru smit í samfélaginu og því nauðsynlegt að fara eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem Almannavarnir og sóttvarnalæknir hafa gefið út,“ segir Kristján.

Fjölmennum skemmtunum og útihátíðum hefur víða verið aflýst um verslunarmannahelgina vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hefur nokkur fjöldi innanlandssmita greinst síðustu daga, þar af sex í gærkvöldi sem tengjast öll einstaklingi sem kom hingað til lands um miðjan júlí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×