Lífið

„Djókur sem varð þreyttur á einum sólarhring“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigríður, Friðrik, Ingólfur og Sverrir fá reglulega beiðnir um að flytja lagið Ja ja Ding Dong.
Sigríður, Friðrik, Ingólfur og Sverrir fá reglulega beiðnir um að flytja lagið Ja ja Ding Dong.

„Þetta er beggja blands. Fólk öskrar Ja ja ding dong en nennir kannski ekkert að hlusta á lagið. Þetta er djókur sem varð þreyttur á einum sólarhring. Lagið er ekkert alslæmt og við Jógvan tökum það til að þagga niður í ding dong kallinum,“ segir söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson sem hefur verið á ferð um landið með Færeyingnum Jógvani Hansen undanfarnar vikur. 

Íslenskir tónlistarmenn hafa fundið fyrir því síðustu daga að Íslendingar öskri upp á svið: „Spilaðu Ja ja Ding Dong“ en eins og margir vita er það lag úr Eurovision-kvikmynd Will Ferrels. Leikarinn Hannes Óli Ágústsson fer með hlutverk í kvikmyndinni og leikur hann einmitt Húsvíking sem öskrar ítrekað sömu setningu á karakter Will Ferrels og Rachel McAdams í kvikmyndinni.

„Mér finnst það eigi að banna lifandi flutning á laginu annars staðar en á Húsavík,“ segir Friðrik.

„Það er alltaf einn Laddi í hverjum sal sem biður um lagið allt kvöldið sem maður kemur fram,“ segir Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, en hann kemur ávallt nokkrum sinnum fram um hverja helgi. Þá oft í heimateitum og finnur hann töluvert fyrir því að Íslendingar séu að vinna með sama brandarann.

„Fólk er eitthvað að biðja um þetta lag en það er meira í gríni en alvöru held ég. Það er ekki inn á mínu prógrami og ekki á leið þangað inn,“ segir Sigríður Thorlacius, söngkona, sem hefur verið að koma fram um land allt með bandinu GÓSS síðustu vikur. 

Alveg rammíslenskt

„Varðandi JaJa Ding Dong. Þá varð ég mikið var við það vikuna eftir að myndin kom út. Ég hafði gaman af laginu og hafði því mjög gaman af þessu,“ segir söngvarinn Sverrir Bergmann í samtali við Vísi.

Sverrir segir að það sé alveg rammíslenskt að einhver sé að garga óskalag yfir allan salinn.

„JaJa Ding Dong varð orðinn hálfgerður samnefnari fyrir þau öll. Grínið virðist að mestu gengið yfir. En ég sé ekkert að því að verða við bóninni allavega í fyrsta skiptið sem það er kallað.“

Hera Björk og Benedikt Sigurðsson hafa nú gefið út íslenska útgáfu af laginu Ja ja Ding Dong eins og sjá má hér að neðan. 

Fólk vill frekar Ja ja Ding Dong heldur en Bubba Morthens á tjaldsvæðinu. Bubba líst ekkert á það.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×