Innlent

Nærri öll skemmti­ferða­skipin hafa af­boðað komu til Ísa­fjarðar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Nærri öll skemmtiferðaskip sem áætluðu komu til Ísafjarðarbæjar í sumar hafa afboðað komu sína.
Nærri öll skemmtiferðaskip sem áætluðu komu til Ísafjarðarbæjar í sumar hafa afboðað komu sína. Vísir/Egill

Nánast öll skemmtiferðaskip sem áætluðu komu til hafna Ísafjarðarbæjar í sumar hafa afboðað. Hafnarstjórinn segir þetta eitt mesta tekjufall sem hafnir á landinu verða fyrir í sumar. Bæjarfélagið hyggur á framkvæmdir uppá milljarð til að geta tekið á móti fleiri skemmtiferðaskipum í framtíðinni.

Mikill fjöldi skemmtiferðaskipa hefur komið til hafna Ísafjarðarbæjar undanfarin ár og í sumar var gert ráð fyrir 150 skemmtiferðaskipum. Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri segir að öll hafi afboðað sig nema 26.

„Ég á von á að þessar tuttugu og eitthvað bókanir eigi eftir að verða afbókaðar innan skamms þegar nær dregur þeim dagsetningum sem við á,“ segir Guðmundur.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði. Vísir

Þetta hafi veruleg áhrif á rekstur hafnarinnar.

„Á milli 50-60% af tekjum hafnarinnar koma frá því að þjónustu skemmtiferðaskip þannig að þetta er gríðarlegt högg fyrir okkur hér. Sennilega það stærsta á landinu miðað við þær hafnir sem eru að taka á móti skemmtiferðaskipum,“ segir Guðmundur. „Þetta eru rútufyrirtæki, leiðsögumenn og allir ferðaþjónustuaðilar hér naga handabökin í dag.“

Guðmundur segir að bæjarstjórnin og hafnarsstjórn hafi hins vegar ákveðið að ráðast í framkvæmdir á Sundabakka höfn til að geta tekið á móti öllum skemmtiferðaskipum nær bænum í framtíðinni.

„Þetta er framkvæmd upp á rúman milljarð sem er bara að detta í gang næstu misserin og innan þriggja ára gerum við ráð fyrir að taka á móti öllum skipum að bryggju. Ef við náum þeim að bryggju ætlum við að auka tekjur okkar um 40-50 milljónir á ári,“ segir Guðmundur.

„Síðustu ár hefur rekstur hjá okkur gengið mjög vel þannig að við ætlum að vona að á næsta ári verði allt komið í eðlilegt horf og við erum komin með 150 skemmtiferðaskip bókuð til okkar á næsta ári.“


Tengdar fréttir

Franskt skemmtiferðaskip brýtur ísinn

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins í Reykjavík lagðist að Miðbakka í morgun. Farþegar skipsins flugu frá París og lentu á Keflavíkurflugvelli nú rétt fyrir hádegi. Þeir fá ekki að fara um borð nema niðurstaða skimunar fyrir Covid-19 reynist neikvæð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×