Sport

KSÍ kynnir nýja landsliðsmerkið 1. júlí næstkomandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin sem birtist á vef Puma en var svo tekin út.
Myndin sem birtist á vef Puma en var svo tekin út. Mynd/Puma

Knattspyrnusamband Íslands gaf það út að 1. júlí næstkomandi verði nýtt merki íslensku landsliða kynnt.

Eins og hefur komið fram munu auðkenni KSÍ verða tvö í grunninn til í stað eins áður. Merki KSÍ, sem hefur verið kynnt, og svo merki landsliðanna.

Í tilkynningu KSÍ á samfélagsmiðlum í dag er síðan birt mynd af tveimur merkjum hjá þýska knattspyrnusambandinu sem dæmi um hvernig þessi tvö merki virka saman. Þar má sjá annars vegar merki þýska sambandsins sem er byggt upp á skammstöfun þess og svo merki landsliðanna með heimsmeistarastjörnurnar fyrir ofan þýska örninn.

Merki KSÍ sem hefur verið kynnt er í íslensku fánalitunum þar sem rauð komman er um leið kyndill íslenskrar knattspyrnu.

Nýja landsliðsmerkið lak út í einhverri mynd fyrr í sumar þegar KSÍ kynnti samstarf sitt og Puma. Mynd af nýja búningnum var þá sett inn á heimasíðu Puma þar sem mátti sjá Guðna Bergsson, formann KSÍ og Bjorn Gulden, framkvæmdastjóra PUMA, með búning á milli sín.

Á búningnum mátti líka greina nýtt merki sem hafi ekki sést áður. Menn voru fljótir að leggja saman tvo og tvo og komast að því að þar færi nýtt merki íslensku landsliðanna.

Á myndinni af merkinu mátti meðal annars greina landvættina fjóra.

„Þetta eru fallegar pælingar úr sögu lands og þjóðar enda mikil hugmyndavinna þarna á bak við. Ef ég man rétt voru þrjár auglýsingastofur sem komu inn í undirbúningsvinnuna með okkur og síðan var valin ein tillaga sem unnið var áfram með, með aðstoð UEFA," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, á sínum tíma í samtali við Viðskiptablaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×