Menning

Nýjar rannsóknir veita ný svör um landnámið

Ráðgátur landnámsins og upphaf Íslandssögunnar er viðfangsefni Landnemanna, nýrrar íslenskrar þáttaraðar sem hefur göngu sína á Stöð 2 í kvöld. Dagskrárgerðin er í höndum Kristjáns Más Unnarssonar en rætt var við hann í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni í morgun um efni þáttanna.

Nýjar vísindarannsóknir á ólíkum sviðum hafa verið að leiða fram nýja vitneskju um hvenær byggð hófst á Íslandi og hvernig hún þróaðist. Um leið er deilt um hvernig túlka beri nýlegar aldursgreiningar, sem virðast gefa til kynna að fólk hafi verið komið til Íslands hundrað til tvöhundruð árum fyrr en áður var talið.

Í þáttunum verður rætt við hátt í eitthundrað manns, þar á meðal vísindamenn á ólíkum sviðum vísinda- og fræðigreina, sem fjalla um þetta efni. Sérfræðingar á ólíkum sviðum velta upp spennandi spurningum um rætur Íslendinga og hverjir fundu Ísland. Eins og þeim hvort grískir sæfarar hafi fyrstir komið til landsins og gefið því nafnið Thule, hvort rómverskur herleiðangur hafi strandað skipi sínu hér, hvort kristin byggð manna frá Bretlandseyjum hafi verið komin á undan norrænu víkingunum og hvort Ingólfur Arnarson hafi í raun verið til.

Fyrsti þáttur Landnemanna ber undirtitilinn Ráðgáturnar og er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 20.40 í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.