Nágrannar Sigurbjörns Sævars Grétarssonar, sem um helgina lýkur afplánun fyrir kynferðisbrot gegn börnum, eru búnir að setja dreifibréf í póstkassa fjölbýlishússins sem hann kemur til með að búa í.
Í dreifibréfinu eru upplýsingar um Sigurbjörn, brot hans og hvenær hann losnar af Litla-Hrauni, ásamt stórri mynd af honum.
Mikið af barnafóki býr í húsinu og eins og kom frá á Vísi í gær er þar einnig rekin daggæsla fyrir börn. Sú sem hana rekur sagði í samtali við Vísi í gær að foreldrum barna sem hún gætir hafi verið gert grein fyrir stöðu mála.
"Það er mikilvægast að þeir sem í nágrenninu búa séu vel upplýstir og börnin okkar viti hvernig þessi maður líti út og hvað hann gerir," sagði einn nágranninn í samtali við Vísi.
Dagvistarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar hefur verið greint frá málinu.